Aðild að Evrópusambandinu – eða ekki

Ég get einungis talað fyrir mig sjálfan. En sem ungur Íslendingur verð ég að taka afstöðu til hvert ég óska að þjóð mín stefni. Eftir að hafa skoðað m.a. Evrópusambandið (ESB) í mínu þriggja ára námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í alþjóðasamskiptum við sama háskóla, hef ég tekið þá afstöðu að þjóðinni sé betur borgið utan sambandsins. Það getur aldrei verið betra að aðrir ráði meiru um málefni Íslendinga en þeir sjálfir. Að mínu mati sést líka glögglega í Icesave málinu hvernig stóru ríkin í sambandinu hegða sér ef upp kemur erfið staða fyrir ráðamenn þeirra. Þeir víla ekki fyrir sér að troða á þeim sem minni eru. Við megum ekki líta á þróun alþjóðasamstarfs Íslands út frá óskhyggju heldur raunhyggju. Líta á alþjóðasamfélagið eins og það er, en ekki eins og mörg okkar kysu að það væri, og móta afstöðu út frá því.

Sveigjanleiki og valkostir eru meðal styrkleika Íslands sem smáþjóðar í alþjóðasamfélaginu. Við þurfum að huga vandlega að öllu alþjóðasamstarfi og láta þar ekki troða á okkur, eins og Icesave málið sýnir glögglega að alltaf er hætta á. Það getur virst skína mikil fegurð úr laufskrýddum skógi tilskipana og reglugerða ESB sem samtvinnar allt og alla. En sú fegurð hvarf snögglega þegar upp kom galli á regluverki ESB um innlánstryggingar. Þá fór lítið fyrir samstöðunni og ESB var ekki lengi að koma ábyrgðinni yfir á Ísland í þágu kröftugra aðildarríkja sinna. Mér hefur verið sagt að slíka meðferð fengjum við ekki sem aðildarríki sambandsins, en slíkt getur enginn vitað með vissu. Og ég vil heldur ekki stuðla að því að Ísland verði hluti af ríkjasambandi sem hegðar sér með svo óábyrgum hætti gagnvart nágrönnum í þröngri stöðu.

Ég er síður en svo andstæðingur Evrópusamstarfs. Hvenær kom sá dagur að samstarf við önnur ríki álfunnar þýddi eingöngu aðild að ESB? Hér á landi þarf að standa vörð um öflugt samstarf við Evrópu en einnig aðrar heimsálfur sem Íslendingum hugnast að eiga samstarf við.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Reynir!

Hlakka til að heyra í þér í Brussel eftir svona 5 ár, þegar Sjálfstæðisflokkurinn verður aftur við stjórnvölinn og við komnir inn í ESB, með evru og allt hér á bullandi uppleið!

Ég er næstum að hugsa um að geyma þessa færslu hjá þér, hreinlega af því að ég hef heyrt þig tala og tel þig skynsaman mann.

Ég er sjálfstæður sjálfstæðismaður og læt ekki flokksklíkuna eða valdamikla hagsmunagæsluaðila innan flokksins stjórna mínum skoðunum. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.7.2009 kl. 15:02

2 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Guðbjörn ég bara skil ekki hvaðan þú hefur þessa vitleysu um að við verðum komin með evru eftir 5 ár - hefurðu lesið Maastricht skilmálana???

Margrét Elín Arnarsdóttir, 16.7.2009 kl. 17:16

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Reynir, við erum sammála þegar þú segir "Við megum ekki líta á þróun alþjóðasamstarfs Íslands út frá óskhyggju heldur raunhyggju."...en ég vil kjósa um raunverulegann samning!  En þú?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.7.2009 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband