Látum meta þann skaða sem hryðjuverkalögin ollu Íslandi!

Ef það á að rannsaka skemmdarverk á íslenskum fjármálamarkaði... hvað með þann skaða sem bresku hryðjuverkalögin ollu Íslandi? Hér er það sem InDefence hópurinn hafði að segja um málið þann 8. október s.l. þegar ár var liðið frá því að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, vinaþjóð og samstofnanda að NATO:
 

Bresk yfirvöld héldu Íslandi að þarflausu á hryðjuverkalistanum í rúmlega átta mánuði eða til 15. júní 2009 og ollu með því Íslendingum ómældum skaða um víða veröld. Beiting hryðjuverkalaganna rýrði meðal annars verðmæti eigna sem annars hefði verið hægt að nýta til endurgreiðslu til eigenda sparifjárreikninga í íslenskum bönkum bæði í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi, þar á meðal Icesave reikninganna.

Bresk stjórnvöld hafa enn ekki sýnt íslenskri þjóð þá lágmarksvirðingu að gefa upp ástæður fyrir því að þessi harkalega leið var farin í stað þess að nota önnur úrræði sem bresk lög bjóða upp á (Freezing Order, Banking Provision Act). Einnig hafa bresk stjórnvöld hvorki beðist afsökunar á því að hafa sett herlausa og friðsama þjóð opinberlega í flokk með verstu hryðjuverkasamtökum heims s.s. Al Qaeda og Talibana, né sýnt nokkra tilburði til þess að bæta Íslendingum það gríðarlega tjón sem þessi aðgerð olli.

 InDefence hópurinn telur ámælisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gripið til viðeigandi aðgerða á því ári sem liðið er frá beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi. Ekkert mat hefur farið fram á þeim efnahagslega skaða sem íslenskur efnahagur hefur orðið fyrir vegna þeirra í nútíð og framtíð og skorar InDefence á íslensk stjórnvöld að fá óháða erlenda rannsóknarstofnun til að meta þann skaða. Ef sá skaði er umtalsverður, þá ber íslenskum stjórnvöldum að krefjast fébóta. Hópurinn telur þetta sérlega mikilvægt í ljósi þeirrar hörku sem Bretar og Hollendingar hafa beitt til að þvinga Íslendinga til að greiða hverja krónu af hinni svokölluðu Icesave skuldbindingu. Í ljósi beitingar hryðjuverkalaganna væri sanngjarnt að Bretar og Hollendingar fengju í sinn hlut þrotabú Landsbankans og Bretar bæti þannig Íslendingum og Hollendingum það tjón sem þeir unnu á eignasafni Landsbankans. Er þá enn ótalið það tjón sem beiting hryðjuverkalaganna olli á öðrum efnahagslegum hagsmunum Íslands.

InDefence skorar á ríkisstjórn Íslands að láta meta þann skaða sem hryðjuverkalögin ollu Íslandi og haldi því mati til haga í núverandi samningaviðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld. LESA MEIRA


mbl.is Rannsaka efnahagsbrot hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband