Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Lestardraumar

Samúel T. Pétursson birti áhugaverðan pistil á Deiglunni í dag. Þar segir hann meðal annars:

Það er ekki ósennilegt að í hugum margra séu lestarsamgöngur eitt af þeim göfugu endamarkmiðum sem hver borg þarf að marka sér til að komast á kortið sem borg meðal borga. Ekki síst nú á tímum umhverfisvitundar og hundrað dollara olíutunnu. Það er sennilega með þessa hugsun í farteskinu sem nokkrir alþingismenn hafa lagt fram þingsályktun þess efnis að skoðuð verði hagkvæmni þess að byggja lestarspor milli Reykjavíkur og Keflavíkurvallar annars vegar, og byggja upp léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. [...] En ný úttekt á lestarsamgöngum sem slíkum er óþörf. Gerð var sambærileg úttekt og þingsályktunin leggur til fyrir réttum fjórum árum síðan. Úttektin var unnin af verkfræðistofunni VSÓ að beiðni OR undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar, þáverandi stjórnarformanns. Niðurstaða úttektarinnar kom fáum á óvart. Ekki síst sérfræðiaðilum. Kostnaður, bæði stofn- og rekstrarkostnaður, var óheyrilega hár, og ávinningurinn mjög takmarkaður. Stofnkostnaður léttlestakerfis var t.a.m. áætlaður milli 20 og 30 milljarðar (líklega 30-40 á núverandi verðlagi), myndi einungis þjóna um þriðjungi af íbúum Reykjavíkur og tekjur af fargjöldum tæplega ná inn fyrir rekstargjöldum.

Nauðsynlegt er að benda á hversu fáránlegt það væri að fara í þessar framkvæmdir. Eins og vitað er þá eru lestarsamgöngur niðurgreiddar, til dæmis í Skandinavíu (þótt mig gruni að flest allar lestar séu niðurgreiddar til að halda verði niðri í samkeppni við einkabílinn). Höfuðborgarsvæði þar eru mun fjölmennari heldur en höfuðborgarsvæðið hér á Íslandi og því er alveg augljóst að ef við færum að koma upp einhverju lestarkerfi hér þá yrði slíkt að vera niðurgreitt til að einhver sæi sér hag í því að nota samgönguformið...

Og hversu oft kvarta ekki Íslendingar yfir sjónmengun? Vita menn ekki hversu mikil sjónmengun fylgir því að vera með lest? Hér eru tvö dæmi frá Svíþjóð:

Lestarstöð í Svíþjóð Dansbo


Sjúkrabraut, Hringbraut eða Flugbraut?

Er með pistil á deiglunni í dag: 

Þvílíkt klúður sem það er að byggja nýja Landspítalann (LSH) við Hringbraut. Að hafa stærstu heilbrigðisstofnun landsins í 101 Reykjavík var kannski ekki vandamál á fyrri hluta síðustu aldar, enda þá í útjaðri íbúabyggðar. Aðstæður eru allt aðrar í dag.

Veikar forsendur
Maður spyr sig hvort stjórnmálamenn í lands- og borgarmálum beri saman bækur sínar í skipulagsmálum. Eftir því sem mér skilst er flugvöllurinn, umferðaspá Hringbrautar næstu ára og nálægð við háskólana meginforsendur staðsetningar LSH við Hringbraut. Hvað mun gerast ef samflokksmenn heilbrigðisráðherra og Ingu Jónu ná sínu fram um að flytja Reykjavíkurflugvöll annað? Þá er enginn flugvöllur í Vatnsmýrinni og ef 15.000 manns byggja þar, eins og áætlun margra borgarfulltrúa gerir ráð fyrir, verður umferðin enn þyngri en spár segja til um.

Hvað varðar nálægð við háskólana þá eru það ekki fullgild rök að mínu mati, þar sem háskóli byggir einfaldlega sína byggingu hjá sjúkrahúsinu - ekki öfugt. Ekki skiptir máli hvar á höfuðborgarsvæðinu læknaneminn lærir. Bara hann fái að stunda sitt nám á almennilegu sjúkrahúsi.

Hvaða forsendur eru það þá sem gera það nauðsynlegt að byggja LSH við Hringbraut? Aðgengi sjúkraflutninga hefur reynst vera slæmt á miðborgarsvæðinu vegna fjölda umferðaljósa, gatnamóta og aukinnar umferðar. Nýja nefndin fyrir nýja spítalann segir reyndar að umferðaþungi mun aukast minna á Hringbraut á næstunni heldur en eins og til dæmis á Keldum. Það hlýtur þá að vera vegna kyrrstöðu í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í miðborginni.

Ég hef lengi mótmælt því að staðsetja LSH við Hringbraut. Að mínu mati eigum við að finna lóð þar sem spítalinn getur byggst upp með öllu því sem þarf til að sameina skrifstofur og deildir LSH sem nú eru dreifðar um allan bæ. Þar væri einnig hægt að vera með þyrlupalla og jafnvel stutta flugbraut við hlið sjúkrahúsins til afnota í neyðartilvikum. Sem dæmi má nefna Keldur, Viðey, Korpúlfsstaði o.s.frv. Selja má allar þær eignir sem finnast á núverandi svæði við Hringbraut. Hægt væri að halda einhverri þjónustu áfram á svæðinu, en þá einungis minniháttar læknavakt.

Hugsum 101 ár, ekki 101 Reykjavík
Þegar við þróum stærstu heilbrigðisstofnun landsins verður að vera nægilegt framboð af lausum nágrannalóðum fyrir áframhaldandi þróun eftir þörfum sjúkrahússins og kröfum landsmanna á hverjum tíma. Það er þess vegna fráleitt að hafa ákveðið að þróa LSH í 101 Reykjavík, í miðborg höfuðborgarinnar þar sem dýrustu lóðirnar eru og vel þekktur umferðaþungi. Það vita allir hversu erfitt það er að komast úr úthverfum Reykjavíkur og niður í bæ á morgnana og úr miðborginni þegar fólk er á leið úr vinnu síðdegis. Mikilvægt er að geta þróað LSH næstu 100 árin án þess að þurfa að kljást við skort á byggingarlóðum og endalausar umferðaflækjur. Varla er hægt að gera ráð fyrir öðru en að spítalinn muni þurfa að tvöfaldast (að lágmarki) eftir nokkra áratugi.

Miklar breytingar munu verða á okkar samfélagi á 21. öld, eins og á þeirri sem nú er liðin. Fólksfjölgun, breytt íbúadreifing og nýjar kröfur verða áfram til innan heilbrigðiskerfisins. Ekki stækkar Reykjavík inn á við heldur út á við. Hafa skipuleggjendur tekið til greina fólksfjöldann sem nú býr í hverfum Breiðholts, Árbæjar, Kópavogs, Hafnafjarðar, Grafarholts, Akraness, Mosfellsbæjar, Borgarness og svo framvegis? Hvern er verið að eltast við að þjónusta? Þetta virðist allt vera fast í viðjum gamallar hugsunar. Nauðsynlegt er að bera saman skipulagsbækur stjórnmálamanna í landsmálum og borgarmálum. Meðal annars er mikilvægt að ákveða framtíð flugvallarins áður en rokið verður í að byggja nýja heilbrigðisstofnun við Hringbraut.

Steingrímur J. Sigfússon ritaði nýlega grein í 24stundir þar sem hann skírði LSH „móðurskip íslenska heilbrigðiskerfisins“. Nú vona ég að Steingrímur geti lagt sitt af mörkum til að krefjast nánari útskýringa á staðarvali nefndarinnar. Það að nauðsynlegt sé að byggja sjúkrahús eru ekki rök í sjálfu sér fyrir þeirri staðsetningu sem valin hefur verið.

Ef fram fer sem horfir mun móðurskip Steingríms enda á landfyllingu í Reykjavíkurtjörn þegar plássleysi fyrir frekari stækkun LSH verður aftur á dagskrá eftir 25-30 ár. Með þessu óska ég eftir því að þeir borgarfulltrúar sem eru í forsvari fyrir skipulagsmálum Reykjavíkur geri ítarlega grein fyrir þeim skipulagsárekstrum sem þarna virðast vera í uppsiglingu.


Geir H. Haarde í viðtali hjá CNN


Árshátíð Landsbankans í gær...

...algjör snilld!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband