Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Test


Styðjum hugrakka þingmenn

Ég vil byrja á því að senda mínum flokksformanni, Bjarna Benediktssyni, nokkur skammarorð. Þótt ég geri ráð fyrir því að hann hafi ekki ætlað sér að gera lítið úr þeim stjórnarþingmönnum sem standa fyrir ákveðnum klofningi í stjórnarliðinu þegar kemur að Icesave málinu, þá átti hann ekki að tala um uppreisn stjórnarliða sem einhvern "sirkus". Mig minnir að hann hafi notað einmitt það orð í kvöldfréttum Stöðvar 2. Rangt orðaval að mínu mati, því ég held að gagnrýni hans hafi snúist um að ríkisstjórnin hafi lofað Bretum og Hollendingum meirihluta í málinu.

Sýnum þessum hugrökku þingmönnum að þjóðin stendur með þeim ef þeir styðja baráttuna um sanngjarnari Icesave lausn. Bjarni Benediktsson ætti að senda þeim hvatningu í stað þess að tala um "sirkus".

Nú þurfum við að skrifa greinar í blöðin og blogga þessum þingmönnum til stuðnings. Við eigum að senda þeim tölvupóst, SMS eða hringja og þakka þeim fyrir sitt framlag. Til dæmis ætluðu ALLIR þingmenn Samfylkingar að samþykkja þessa ósanngjörnu samninga án þess að vita neitt um innihald þeirra. Það sama átti við um hluta af þingflokki VG, en nokkrir tóku sig samt til og stóðu fyrir því sem seinna hefur verið kallað andspyrnuhreyfing í VG.

Ef þingmenn verða allir á endanum vel upplýstir í Icesave málinu hef ég ekki miklar áhyggjur af atkvæðagreiðslunni. Þá munu þeir sjá hversu ósanngjarnt þetta samkomulag við Breta og Hollendinga er, áhættan og óvissan er öll á höndum Íslendinga. Fyrirvararnir sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina í ágúst hafa verið eyðilagðir að mati sérfræðinga sem hafa tjáð sig undanfarna daga.


mbl.is Gefur ekki upp Icesave-afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólin sett um háls þingmanna

Icesave málið fer á hraðferð í gegnum pólitíska kerfið á Íslandi. Það er nú alveg ljóst að dagurinn í dag verður þannig að ríkisstjórnin fundar núna í hádeginu og ákveður hvernig ráðherrarnir munu í sameiningu þrýsta á þingmenn, og þá sérstaklega fjárlaganefnd, til að fallast á kröfur Breta og Hollendinga.

Gamla góða hengingarólin, sem við höfum marg oft séð á þingi á undanförnum mánuðum, verður sett á þingmenn Samfylkingar og VG. Fjárlaganefnd kemur saman kl. 14:00 og afgreiðir málið og Jóhanna heldur blaðamannafund kl 16:00 þar sem hún fagnar niðurstöðu fjárlaganefndar og því óskerta lýðræði sem hér ríkir.

Mér er orðið hálf óglatt.


mbl.is Ríkisstjórnarfundur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstristjórnin segir af sér

Nú hefur framkvæmdavaldið á Íslandi lofað Bretum og Hollendingum að taka aftur þátt í að kúga Alþingi Íslendinga til að breyta fyrirvörum við ríkisábyrgð í Icesave-málinu. Á næstu dögum munu ráðherrar Íslands tjá sig í íslenskum fjölmiðlum og segja alls konar sögur um hvað muni gerast ef Alþingi samþykki ekki breytingarnar. Ísland verði Kúba norðursins o.s.frv. Við höfum öll heyrt þessar sögur.

Einungis átti að bjóða Bretum og Hollendingum þessa ríkisábyrgð ef þeir samþykktu fyrirvara Alþingis. Þetta var ekki eitthvað sniðugt "trix" í samningatækni þar sem við skutum hátt og ætluðum svo að semja niður og þar með sætta okkur við lakari niðurstöðu í næstu lotu samningaviðræðna. Fyrirvararnir voru það sem Alþingi taldi sig geta staðið við. Hvernig á t.d. hið umtalaða lánshæfismat Íslands að batna ef við fáum verri samninga en fyrirhugað var og hugsanlega samninga sem við getum ekki staðið við?

Það átti bara að kynna fyrirvarana í Bretlandi og Hollandi og segja: take it or leave it!

Alþingi veitti ekki framkvæmdavaldinu (ríkisstjórninni) frekara samningsumboð. Ég bíð því eftir að sjá fyrirsögn bloggfærslu minnar á Mbl.is! Vinstristjórnin er versta stjórn sem starfað hefur fyrir íslenska lýðveldið frá upphafi!


mbl.is Icesave-fyrirvörum breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Látum meta þann skaða sem hryðjuverkalögin ollu Íslandi!

Ef það á að rannsaka skemmdarverk á íslenskum fjármálamarkaði... hvað með þann skaða sem bresku hryðjuverkalögin ollu Íslandi? Hér er það sem InDefence hópurinn hafði að segja um málið þann 8. október s.l. þegar ár var liðið frá því að bresk stjórnvöld beittu hryðjuverkalögum gegn Íslendingum, vinaþjóð og samstofnanda að NATO:
 

Bresk yfirvöld héldu Íslandi að þarflausu á hryðjuverkalistanum í rúmlega átta mánuði eða til 15. júní 2009 og ollu með því Íslendingum ómældum skaða um víða veröld. Beiting hryðjuverkalaganna rýrði meðal annars verðmæti eigna sem annars hefði verið hægt að nýta til endurgreiðslu til eigenda sparifjárreikninga í íslenskum bönkum bæði í Bretlandi, Hollandi og á Íslandi, þar á meðal Icesave reikninganna.

Bresk stjórnvöld hafa enn ekki sýnt íslenskri þjóð þá lágmarksvirðingu að gefa upp ástæður fyrir því að þessi harkalega leið var farin í stað þess að nota önnur úrræði sem bresk lög bjóða upp á (Freezing Order, Banking Provision Act). Einnig hafa bresk stjórnvöld hvorki beðist afsökunar á því að hafa sett herlausa og friðsama þjóð opinberlega í flokk með verstu hryðjuverkasamtökum heims s.s. Al Qaeda og Talibana, né sýnt nokkra tilburði til þess að bæta Íslendingum það gríðarlega tjón sem þessi aðgerð olli.

 InDefence hópurinn telur ámælisvert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa gripið til viðeigandi aðgerða á því ári sem liðið er frá beitingu hryðjuverkalaganna gegn Íslandi. Ekkert mat hefur farið fram á þeim efnahagslega skaða sem íslenskur efnahagur hefur orðið fyrir vegna þeirra í nútíð og framtíð og skorar InDefence á íslensk stjórnvöld að fá óháða erlenda rannsóknarstofnun til að meta þann skaða. Ef sá skaði er umtalsverður, þá ber íslenskum stjórnvöldum að krefjast fébóta. Hópurinn telur þetta sérlega mikilvægt í ljósi þeirrar hörku sem Bretar og Hollendingar hafa beitt til að þvinga Íslendinga til að greiða hverja krónu af hinni svokölluðu Icesave skuldbindingu. Í ljósi beitingar hryðjuverkalaganna væri sanngjarnt að Bretar og Hollendingar fengju í sinn hlut þrotabú Landsbankans og Bretar bæti þannig Íslendingum og Hollendingum það tjón sem þeir unnu á eignasafni Landsbankans. Er þá enn ótalið það tjón sem beiting hryðjuverkalaganna olli á öðrum efnahagslegum hagsmunum Íslands.

InDefence skorar á ríkisstjórn Íslands að láta meta þann skaða sem hryðjuverkalögin ollu Íslandi og haldi því mati til haga í núverandi samningaviðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld. LESA MEIRA


mbl.is Rannsaka efnahagsbrot hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stóru málin óafgreidd

Auðvitað er of snemmt að segja að botninum sé náð og hvað þá að tala um einhvern efnahagsbata. Staðreyndin er sú að íslensk stjórnvöld forðast það að þurfa að takast á við stóru og mikilvægu málin: skuldamál heimila og fyrirtækja. Varla telja menn að greiðslujöfnun og frysting lána sé viðunandi lausn? Né heldur einhver víðtæk ríkisvæðing meirihluta atvinnulífsins. Ekki munum við ná árangri fyrr en þessi mál hafa verið afgreidd.

Eftir afgreiðslu Icesave-fyrirvaranna í sumar fór þingið beint í frí. Það kemur hins vegar saman nú í byrjun október og erum við mörg að vonast til að fjármál heimila komist þar á dagskrá. Hins vegar virðist vinstristjórnin aftur vera að klúðra lykilatriðum í Icesave málinu... og við vitum nú öll að þessi stjórn getur ekki tekist á við tvennt í einu þegar Icesave er að "trufla".

Við þurfum að finna viðunandi langtímalausnir fyrir heimili og fyrirtæki í landinu. Það þarf að skjóta bjartsýni inn í íslenskt samfélag og tryggja greiðsluvilja fólks. Það fer ekkert á milli mála að flestir vilja vera hér heima og taka þátt í að endurreisa íslenskt efnahagslíf, en það gengur ekki upp ef stjórnvöld leggjast ekki á eitt með þjóð sinni.


mbl.is Of fljótt að tala um efnahagsbata
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarastéttin veldur úrslitum

Stærsta vandamálið á Íslandi í dag er ekki sá hópur skuldara sem nú þegar er gjaldþrota og mun þurfa á afskriftum að halda, heldur stóri hópurinn sem segist með naumindum ná endum saman um hver mánaðarmót. Guð hjálpi okkur ef sá hópur gefst upp. Ef sá dagur kemur munum við Íslendingar finna fyrir alvöru hruni. Hrunið 2008 verður eins og góðæri í samanburði.

Ég tel það óábyrgt af stjórnmálamönnum að skoða ekki leiðréttingu á gengis- og verðtryggðum lánum.  Sérstaklega hafa þingmenn Samfylkingar staðið í afar einkennilegum málflutningi og hafnað blint svokölluðum "almennum aðgerðum". Stjórnmálamenn eiga að gæta hagsmuna okkar allra. Þeir hafa hins vegar dælt mörg hundruð milljörðum íslenskra króna inn í peningamarkaðssjóði, innlán voru tryggð að fullu o.s.frv. Margt hefur verið gert fyrir fjármagnseigendur.

Ég er ekki að segja að taka beri alla ábyrgð af skuldurum landsins, ekki halda að ég sé að biðja um eitthvað slíkt. Hins vegar snýst þetta bara um sanngirni. Að dreifa álaginu svo við endum ekki í öðru kerfishruni.


mbl.is Ná ekki endum saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afléttum leyndinni

Það sem þarf að gera núna er að:

1) Aflétta leyndinni í Icesave málinu

2) Skipa nýja samninganefnd

3) Nýta betur tengslanet íslenskra almannatengslafyrirtækja (já, kaupa þjónustu þeirra frekar en að ríkið ráði til sín fleiri PR-starfsmenn. Enda er að finna í þessum fyrirtækjum hæfustu almannatengla Íslands)

....og kjósa okkur nýjan forseta sem fyrst! 


mbl.is Hollendingar bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þurfum nýjan forseta

Verður Ólafur Ragnar Grímsson fulltrúi Íslands þegar bandarískir hagfræðingar koma saman á fund til að fjalla um reynslu Íslendinga, hina alþjóðlegu fjármálakreppu og hvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir að svo alvarleg áföll og kreppur endurtaki sig í framtíðinni?

Á þetta að vera brandari?

Ég tek undir með Agnesi Bragadóttur: 1% forsetinn á að sjá sóma sinn í því að segja af sér embætti.


mbl.is Forsetahjónin í Bandaríkjaheimsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Muse 007

Mbl.is: "Liðsmenn bresku rokkhljómsveitarinnar Muse segjast vera tilbúnir til að semja lag fyrir næstu James Bond kvikmynd - ef kallið kemur."

Muse er frábær hljómsveit og ég er alveg viss um að ef þeir fengju verkefnið kæmi alveg magnað lag frá þeim. Ég get eiginlega ekki nefnt bara eitt uppáhalds lag með Muse, en mér finnst til dæmis Plug in baby og svo Butterflies & Hurricanes snilldar lög.

Eins og segir í fréttinni á mbl.is er kannski einnig tímabært að bresk hljómsveit verði með nýja Bond lagið. Síðasta breska hljómsveitin sem átti Bond-lag var Duran Duran árið 1985, þeir voru með "A view to a kill":


mbl.is Muse til í að semja Bond-lag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband