Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Höfnin flutt, flugvöllurinn kyrr!

Öflug umræða um skipulagsmál borgarinnar er nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr. Langvarandi forystuleysi borgaryfirvalda í þessum málum hefur skemmt verulega fyrir eðlilegri þróun borgarinnar. Ef fram fer sem horfir mun Landspítali rísa í kjarna borgarinnar, flugvöllurinn skal fara eða vera kyrrsettur, gömul og niðurnídd hús í miðbæ borgarinnar skulu rifin eða varðveitt og ný íbúðarhverfi vaxa í útjaðri borgarinnar. Ég tel umræðuna um Vatnsmýrina, 102 Reykjavík, leggja skugga á umræðu annarra skipulagsþátta. Til eru önnur svæði þar sem íbúabyggð kemur til greina í kjarna höfuðborgarinnar.

Nýjar hugmyndir
Borgarfulltrúar allra flokka tala fagurt um þróun miðbæjarins og heildarmynd borgarinnar. Hins vegar virðast flestir þeirra vera algjörlega fastir við Vatnsmýrina þegar kemur að þróun nýrra íbúahverfa í miðbænum. Nauðsynlegt er að koma á framfæri hugmyndum sem geta stuðlað að íbúafjölgun í kjarna borgarinnar á næstu áratugum eins og tilteknir stjórnmálamenn gera til dæmis með Vatnsmýrartillögunni. Hins vegar eru til aðrar leiðir sem ná fram sömu markmiðum þar sem flutningur flugvallarins er ónauðsynlegur. Þær lausnir geta verið framkvæmanlegar á mun skemmri tíma heldur en þróun byggðar í Vatnsmýri.

Flugvöllurinn kyrr
Óbreytt staðsetning flugvallarins er skynsamleg að mínu mati og þarf alls ekki að útiloka uppbyggingu í nágrenni hans. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að stór hluti Reykvíkinga vilji halda flugvellinum. Peer Teglgaard Jeppesen, einn þekktasti arkitekt Dana og hönnunarstjóri arkitektastofunnar HLT í Danmörku, vakti nýlega athygli á kostum þess að hafa flugvöllinn áfram í Reykjavík. Peer sagði meðal annars að ekki væri gáfulegt að láta fólk aka langar leiðir að óþörfu til að sækja innanlandsflug, eins og til dæmis til Keflavíkur, þar sem slíkt leiðir af sér óþarfa orkunotkun og þar af leiðandi mengun. Varðandi uppbyggingu í Vatnsmýrinni sagði hann að flugvélar muni þróast og þurfa styttri flugbrautir og því gæti flugvallarsvæðið hugsanlega minnkað í framtíðinni.

Höfnin flutt
Flestir eru sammála um að nauðsynlegt er að þétta byggð í kjarna Reykjavíkur. Í því samhengi er rétt að taka hafnarsvæðin til umræðu. Þetta eru með verðmætustu svæðum borgarinnar og geta vel orðið með þeim fallegri. Það fer ekki framhjá neinum sem heimsækir hafnarsvæðin í miðborginni að nauðsynlegt er að koma svæðinu í lag með einhverjum hætti. Að mínu mati væri skynsamlegast að fylla upp í 80-90% af núverandi hafnarsvæði við miðbæinn, sem er um það bil 27 hektarar, og þróa þar íbúabyggð og mynda þannig bryggjuupplifun ásamt því að leggja áherslu á göngusvæði. Með þessu myndi íbúum miðbæjarins fjölga ört þar sem nú þegar er byrjað að byggja á svæðinu og afar vinsælt að búa í slíkum hafnarhverfum.

Einnig ætti að athuga önnur hafnarsvæði í kjarna borgarinnar. Hægt væri á næstu áratugum að flytja Eimskip, Samskip og aðra úr Sundahöfn og breyta öllu því svæði í íbúahverfi. Til samanburðar má geta þess að hér er um að ræða landsvæði sem er töluvert stærra en Reykjavíkurflugvöllur. En umfjöllun um Sundahafnarsvæðin ein og sér er efni í aðra grein.

Gamla höfnin og Örfirisey
Gamla höfnin á að vera hluti af nýju hafnarhverfi. Hins vegar á Reykjavík að vera framsækin borg á sem flestum sviðum atvinnulífs og ætti að gera ráð fyrir nýju hafnarsvæði yst á Örfirisey. Skilgreina þarf starfsemina sem á þar heima og veita atvinnugreininni góða og nútímalega aðstöðu. Ánægjulegt ef hægt væri að efla og halda hafnarsvæðum borgarinnar virkari. Ekki á að fjarlæga höfnina, heldur flytja hana út fyrir núverandi hafnargarða. Rétt er af Reykjavíkurborg að veita sérstaklega smábátum og minni fiskiskipum aðstöðu.

Þar sem hér er rætt um Örfirisey er varla hægt að sleppa því að minnast á olíutankana. Krefjumst þess að þeir [olíutankarnir] verði fluttir annað og helst grafnir niður í jörðu utan höfuðborgarsvæðisins. Sjónmengunin hverfur, lóðir verða lausar fyrir aðra starfsemi og uppbyggingu ásamt því að keyrsla flutningabíla til og frá svæðinu í gegnum miðbæinn hverfur. Sem væri í sjálfu sér ákveðinn sigur í umhverfis- og öryggismálum.

Hringbraut
Í tengslum við þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram hér að ofan er rétt að staldra við samgöngumálin. Þar sem hafnirnar yrðu fluttar lengra út væri hægt að leggja áframhaldandi Sæbraut í stokk framhjá tónlistar- og ráðstefnuhúsinu, yfir í Örfirisey og ná þaðan tenginu við Hringbraut. Þar með væri umferðinni ekki beint inn í miðborgina eins og til dæmis í gegnum Geirsgötu og Mýrargötu. Það er rangt að draga helstu umferðaræðar inn í íbúabyggð að óþörfu. Höldum áfram með Sæbraut eins og hún var lögð á sínum tíma, meðfram sjónum. Búum til alvöru Hringbraut í kringum borgina.

Skipulagsmál í úlfakreppu
Látum ekki afstöðuleysi kjörinna borgarfulltrúa og deilur þeirra á milli koma í veg fyrir áframhaldandi þróun Reykjavíkur. Það er kominn tími til að leysa skipulagsmál borgarinnar úr þeirri úlfakreppu sem þau eru búin að vera í. Byrjum að taka ákvarðanir sem skipta máli.

24stundir, 21. júní 2008


Áhrifamáttur bloggsins

Blogg veitir nokkrum mönnum tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós nær daglega. Þar má nefna til dæmis Björn Bjarnason og Egil Helgason, sem taka virkan þátt í umræðum þjóðfélagsins. En getur verið að bloggið sé eins og Hyde Park Corner í Lundúnum, afkimi fyrir sérvitringa?

Í BA ritgerð minni skrifaði ég um blogg og stjórnmál. Afar áhugavert var að skoða þetta tvennt í samhengi enda hefur bloggið verið lítið skoðað á Íslandi í fræðilegum tilgangi. Meðal þeirra spurninga sem ég reyni að svara í ritgerð minni er hvort bloggið getur verið áhrifamikill upplýsingamiðill þjóðfélagsumræðunnar. Umdeilt er hvort bloggari geti haft trúverðugleika, áhrif og völd í okkar samfélagi. 

Áhrif bloggarans takmörkuð
Ljóst er að á Íslandi er aðgengi að tölvu og veraldarvefnum með því besta í heiminum. Flestir Íslendingar eiga þar af leiðandi auðvelt með að taka þátt í bloggumræðum sem lesendur eða höfundar eigin bloggs. Hins vegar er staðan allt önnur í flestum öðrum löndum og því er hópurinn sem tekur þátt í bloggumræðum afar takmarkaður. En hvert sem litið er sést ávallt kjarni vinsælla blogga sem ríkir innan bloggheimsins. Oftast eru það skoðanamyndandi einstaklingar í þjóðfélaginu sem virðast fá mesta athygli. Ef bloggarinn er ekki fjölmiðlamaður, háskólamenntaður, stjórnmálamaður, framkvæmdastjóri eða formaður einhvers félags má teljast afar ólíklegt að hefðbundnir fjölmiðlar á Íslandi muni veita skrifum þess bloggara einhverja athygli og þar af leiðandi er talið að skrifin hafi afar takmörkuð áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Raunin er sú að meirihluti blogga hafa svo sem engin áhrif og draga fáa lesendur að sér. Samt sem áður eru blogg á Íslandi vel tengd við hefðbundna fjölmiðla og í ljós kom að það er mjög einfalt að margfalda heimsóknir bloggsins á örfáum dögum með því að blogga við fréttir á til dæmis mbl.is. Það má telja að íslenskt blogg eigi mikla möguleika á að geta orðið áhrifamikið ef það er notað með réttum hætti. En augljóst er að viðvera fjölmiðla- og stjórnmálamanna sé nauðsynleg til að bloggið geti talist trúverðugt.

Lýðræði á veraldarvefnum
Fjöldi stjórnmálamanna hafa stofnað eigið blogg og vefsíður. Það er athyglisvert að einn elsti þingmaðurinn, Björn Bjarnason, skuli vera meðal fyrstu bloggara Íslendinga. Nokkuð öflug umræða fór fram þegar Björn Bjarnason tók í notkun tölvupóst og stofnaði sitt blogg. Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður, varaði við tækninýjungum þáverandi menntamálaráðherra, sem var þá Björn Bjarnason. Það var ekki bloggið sem Guðrún var að bregðast við í þessu tilfelli heldur tölvupóstþjónusta ráðherrans. Ekki tíðkaðist á þeim tíma að nota tölvupóst sem samskiptatæki og um þetta ritaði Guðrún eftirfarandi í Morgunblaðinu þann 20. maí árið 1995:

Menntamálaráðherra á auðvitað heiður skilinn fyrir að bjóða þessa þjónustu þeim sem hana geta þegið. En öll starfsemi stofnana ríkisins verður að vera aðgengileg öllum landsmönnum. [...] Mín vegna má öll þjóðin eiga tölvur og mótöld. Það er víst ágæt skemmtun að komast inn í „gagnslausu síðurnar“ á Internetinu, ef menn þarfnast þess ekki til annars. Þar má sjá hvað vatnsborðið er hátt í klósettkassa einhvers manns í Texas og hvað er eftir í kaffikönnunum í Háskólanum í Cambridge. Og svo er hægt að spjalla við nágrannana eða menntamálaráðherrann og enginn þarf nokkru sinni að að hitta neinn.
 

Það er mjög ólíklegt að einhver myndi vilja taka undir orð Guðrúnar nú. En með tækninýjungum getur almenningur haft samband beint við valdamenn þjóðarinnar og þar með rofið einangrunarstöðu þeirra. Því getur vel verið að bloggið þurfi að sætta sig við ákveðið magn af gagnrýni þangað til að það verður viðurkenndur hluti af þjóðfélagsumræðunni og öflugt samskiptatæki milli þegna landsins og ráðamanna þess. Lýðræðið og aðgengi að ráðamönnum á Íslandi telst að mörgu leyti til fyrirmyndar og hefur bloggið sem samskiptatæki kannski engin byltingarkennd áhrif hér. En bloggið veitir öðrum fjölmörg tækifæri til að tjá sig. Sem dæmi má nefna að konur í Íran nota blogg til að tjá sig nafnlaust um ástandið í landinu og bloggað er frá átakasvæðum í heiminum þar sem takmarkað tjáningafrelsi ríkir. Blogg er oftast ókeypis og einfalt að nota og fátt getur komið í veg fyrir að bloggskrif eigi sér stað. Eina sem þarf er aðgengi að tölvu og veraldarvefnum. Hins vegar hafa yfirvöld einstakra landa gengið svo langt, til aðgerða gegn bloggheiminum sem þeir eiga erfitt með að stjórna, að fjöldi bloggara hefur þurft að sitja fangelsisrefsingu vegna skrifa sinna á veraldarvefnum. Þau lönd sem stuðla að slíkum mannréttindabrotum eru oftast vel þekkt fyrir að draga úr tjáningafrelsi þegna sinna. 

Trúverðugleiki er lykilatriði
Ein meginforsenda þess að bloggið geti áunnið sér trúverðugleika, og þar með völd, er að skoðanamyndandi einstaklingar taki þátt og notfæri sér blogg sem tjáningamiðil. Fyrir vesturheiminn virðist sú forsenda vera til staðar. Afleiðingar þess að skoðanamyndandi einstaklingar taki þátt í bloggumræðum er að hefðbundnir fjölmiðlar veiti þessum nýja miðli athygli. Ef þessir sömu einstaklingar hverfa af vettvangnum og snúa sér að öðru er gert ráð fyrir að hlutverk bloggsins í þjóðfélagsumræðunni verði afar takmarkað. Sumir ganga svo langt og segja það þá verða tilgangslaust. Endar þá bloggið kannski eins og Hyde Park Corner í Lundúnum, afkimi fyrir sérvitringa? 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband