Bein kosning borgarstjóra
29.10.2008 | 17:36
Forystumenn okkar í borgarstjórn hafa á síðustu 12 mánuðum þurft að sæta mikilli gagnrýni. Þótt sú gagnrýni hafi að nokkru leyti verið réttmæt er margt sem hefur verið sett fram afar ósanngjarnt. Tíð borgarstjóraskipti og sú ókyrrð sem einkennt hefur stjórn borgarinnar undanfarin misseri er mörgum áhyggjuefni. Þessi dapurlega reynsla hefur sannfært mig um að skynsamlegast væri að veita embætti borgarstjóra lýðræðislegt umboð með beinni kosningu.
Lýðræðislegt umboð borgarstjóra
Ég hef áður sett fram þá skoðun að kjósa eigi borgarstjóra í beinni kosningu. Hver framboðslisti fyrir sig tilnefndi þá forystumann sinn sem borgarstjóraefni. Kosning færi því fram eins og venjulega með einni mikilvægri breytingu. Þegar kjósandi gæfi tilteknum lista atkvæði sitt þá hefði hann jafnframt tækifæri til að kjósa borgarstjóra af hvaða lista sem væri. Hvernig fyrirkomulagið yrði nákvæmlega mun ég ekki leggja fram hér þar sem margvíslegar leiðir eru í boði. Grunnhugsunin er sú að Reykvíkingum gæfist þá færi á að kjósa borgarstjóra sérstaklega og veita þannig því embætti lýðræðislegt umboð á fjögurra ára fresti.
Lærum af fyrri mistökum
Tíð meirihlutaskipti undanfarið hafa gert mönnum það ljóst að einungis meirihluti Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna er raunhæfur kostur á þessu kjörtímabili. Það var augljóst að Tjarnarkvartettsmeirihlutinn sem stofnaði til meirihlutasamstarfs síðastliðið haust var ekki einhuga um eitt eða neitt og gat ekki komið sér saman um málefnasamning á þeim 100 dögum sem hann sat við völd. Það var því í sjálfu sér fagnaðarefni að þeim meirihluta skyldi slitið með því að fá Ólaf F. Magnússon til samstarfs með Sjálfstæðismönnum. Þegar í ljós kom að ekki var mögulegt að halda lífi í þeim meirihluta og vitað var að Tjarnarkvartettinn var óstarfhæfur þá var það augljós skylda Sjálfstæðismanna að leita lausna í stað þess að lama enn frekar stjórn borgarinnar. Það var því fagnaðarefni þegar flokkurinn náði samkomulagi við fulltrúa Framsóknarmanna, Óskar Bergsson. Ég held að nú varpi Reykvíkingar öndinna léttar þegar tekist hefur að endurheimta stöðugleika við stjórn borgarinnar.
Borgarbúar ráða borgarstjóra
Með nýjum meirihluta hafa tvímælalaust myndast tækifæri til að stíga ýmis framfaraskref borgarbúum til heilla, skref sem ekki hefði verið unnt að taka með óbreyttum meirihluta. Það væri ánægjulegt ef núverandi borgarstjórn nýtti tækifærið til að taka til umræðu kosningafyrirkomulag borgarstjóra. Umræða um beina kosningu borgarstjóra Reykjavíkur er ekki ný af nálinni. Slík umræða var í gangi hér fyrir um það bil 100 árum. Á fyrstu árum 20. aldar stóðu deilur um skipan í þetta æðsta embætti höfuðborgarinnar. Niðurstaðan varð að lokum sú að borgarstjóri skyldi kjörinn af borgarstjórn en ekki beint af íbúum Reykjavíkur. Það fyrirkomulag hefur gengið vel lengst af, ekki síst vegna farsællar forystu Sjálfstæðisflokks gegnum áratugina. Kosningaúrslit að undanförnu hafa hins vegar ekki verið jafn afdráttarlaus og áður og af þeim ástæðum hefur verið mikil óvissa um það hver skuli verða borgarstjóri í hvert sinn. Tíð borgarstjóraskipti á umliðnum árum undirstrika þetta (Ingibjörg Þórólfur Steinunn Vilhjálmur - Dagur - Ólafur - Hanna Birna). Það er kominn tími til að þessum útskiptingum linni og að embætti borgarstjóra öðlist aftur fyrri virðuleika. Til þess að svo verði má embættið ekki verða sífellt bitbein kosningabandalaga og hrossakaupa milli flokka.
Ég tek ekki undir þá hugmynd að borgarstjórn ráði óháðan borgarstjóra eins og nokkurs konar framkvæmdastjóra. Að mínu mati eigum við Reykvíkingar sjálfir að sjá um ráðningu borgarstjóra í beinni kosningu og veita því virðulega embætti lýðræðislegt umboð í að minnsta kosti fjögur ár í einu.
Frelsi.is, 29. október 2008.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.