Frelsið og einstaklingurinn
2.3.2009 | 20:49
Forysta vinstriflokka á Íslandi sá tækifæri í haust þegar bankakerfi þjóðarinnar hrundi og lýsti því yfir að grunnhugsjón Sjálfstæðisflokksins væri gjaldþrota rétt eins og bankarnir.
Eins og svo margir aðrir hef ég velt þessu fyrir mér og ákvað að skoða betur grunnhugsjón Sjálfstæðisflokksins sem talin var gjaldþrota. Frjálshyggjan er fallinn sögðu vinstrimennirnir sem nú hafa náð tökum á valdastólum íslenska lýðveldisins.
Í kosningabaráttunni árið 2007 gaf Sjálfstæðisflokkurinn út kynningarmyndband. Í upphafi myndbandsins er grunnhugsjón flokksins lýst:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur frelsi og sjálfstæði einstaklingsins að leiðarljósi. Þetta er grundvöllur afstöðu flokksins í öllum málum. Þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir. Sjálfstæðisflokkurinn trúir á einstaklinginn og frelsi hans til að þroska og njóta hæfileika sinna í samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri. Það er í þannig samfélagi sem einstaklingar og fyrirtæki vaxa og dafna öllum til hagsbóta. Við teljum að þetta samfélag verði best tryggt með lágmarks afskiptum hins opinbera en jafnframt stuðningi við þá sem á þurfa að halda með sterku öryggisneti.
Á vefsíðu flokksins segir einnig um hugmyndafræðina að hún gefur sig ekki út fyrir að vera nákvæm forskrift að fullkomnu ríki enda lifa slík fyrirmyndarríki sjaldnast sjálfstæðu lífi utan kennisetninga og fræðikerfa.
Draga má þennan texta saman í nokkra punkta:
- Frelsi og sjálfstæði einstaklingsins.
- Jöfn tækifæri.
- Lágmarks afskipti hins opinbera.
- Sterkt öryggisnet fyrir þá sem þurfa á slíku að halda.
- Sjálfstæðisstefnan ekki nákvæm forskrift á fullkomnu ríki.
Orðin tala fyrir sig. Ég mun gera það sem ég get til að standa vörð um þessa grunnhugsjón því hún varð aldrei gjaldþrota. Því miður hafa íslensk stjórnmál haft tilhneigingu til að snúast um völd en ekki hugsjónir. Sjálfstæðisflokkurinn verður að taka þetta til sín ásamt öllum öðrum stjórnmálaflokkum. Þessu skal breyta með nýrri kynslóð stjórnmálamanna á Alþingi sem þora að hafa skoðanir og láta til sín taka!
Deiglan.com, 2. mars 2009.
Baðst afsökunar á mistökum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þú þarft líka að hafa þetta með:
Samþykkt á landsfundi "Sjálfstæðisflokksins" 2007:
"..lögbundið eftirlitskerfi verði ekki of íþyngjandi fyrir atvinnulífið og þarf að gæta þess að gera ekki óþarfar kröfur til atvinnulífsins og taka ekki upp meira regluverk en nauðsyn krefur."
Þetta var veganesti Sjálfgræðgisflokksins til handa bankastjórunum og Fjármálaeftirlitinu.
Ef kjósendur setja x við D þá er endanlega úti um Ísland
Glúmur Gylfason (IP-tala skráð) 3.3.2009 kl. 00:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.