Stöndum saman – ríkisstjórnin með þjóðinni

Nú verður ríkisstjórn Íslands að gerast raunsæ og fara að horfast í augu við hversu ótækir fyrirliggjandi Icesave samningar eru. Ríkisstjórnin verður að hlusta á rökvísar ábendingar fjölmargra sérfræðinga og hlíta vilja stórs meirihluta þjóðarinnar sem vill hafna þessum samningum. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll verður að snúa sér að því að ná sanngjarnari niðurstöðu. Meðferð málsins hefur verið ein samfelld hrakfallasaga. Samt reynir fjármálaráðherra endalaust og af öllum sínum sannfæringarkrafti að draga fram einhverja kosti samninganna. Það eru hins vegar vankantar og aftur vankantar sem koma í ljós. Því verður æ skiljanlegra að í upphafi skuli hafa verið ætlun fjármálaráðherra að fá ríkisábyrgð á samningunum án þess að þingmönnum yrði veittur aðgangur að samningsskjölunum – svo fráleit vanvirðing við Alþingi sem slík málsmeðferð er.

Ríkisstjórninni virðist ennþá vera meira í mun að verja Icesave samningana en rétta hlut þjóðarinnar gagnvart viðsemjendunum. Í hvert sinn sem fram koma lagarök sem styðja málstað Íslendinga eru fengnir innanbúðarmenn stjórnarinnar til að reyna að andæfa þeim, rétt eins og þeir væru í vinnu hjá Bretum og Hollendingum en ekki valdir til að gæta hagsmuna Íslendinga. Ef möguleikar eru á tvenns konar túlkun velja forystumenn ríkisstjórnarinnar ævinlega þann kostinn sem kemur Bretum og Hollendingum betur. Þeir þráast við að viðurkenna það sem þorri alþingismanna hefur fyrir löngu áttað sig á að samningarnir eru ótækir með öllu fyrir íslenska þjóð.

Nú þegar tilraunirnar til rökstuðnings hafa mistekist hjá ríkisstjórnarforystunni virðist eiga að hafa í hótunum við þingmenn stjórnarliðsins sem ekki geta samvisku sinnar vegna stutt samningana og vilja að betur verði gert.  Það væri lýðræði og þingræði okkar mikið áfall ef haldið verður lengra á þeirri braut.  Hótanir um að þeir sem ekki vilja styðja samningana valdi stjórnarslitum eru út í hött.  Stjórnin hefði aldrei meiri ástæðu til að sitja en ef hún einsetti sér að standa sig betur en áður við að tryggja hag þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu.

Ýmis dæmi eru líka um það úr milliríkjasamskiptum að samningar hafi ekki náð staðfestingu þjóðþinga. Reyndum samningamönnum Breta og Hollendinga og ríkisstjórnum þeirra, sem þekkja til hlítar alþjóðlegar hefðir og venjur, var að sjálfsögðu fullljóst að ákvörðun um ríkisábyrgð, og þar með gildi samninganna, væri einungis á valdi Alþingis. Nú þegar mistekist hefur gjörsamlega að sannfæra Alþingi um ágæti þessara samninga á framkvæmdavaldið að sjá sóma sinn í því að gera viðsemjendunum grein fyrir þeirri staðreynd.  Hún skuldar þjóð sinni að leita nýrrar niðurstöðu -- sanngjarnari samninga.

Bæði Bretum og Hollendingum er auðvitað fyrir löngu orðið fyllilega ljóst að málið stefnir í þann farveg.  Meint tregða þeirra til að setjast að samningaborði á ný sýnir vel hve hagstæðum samningum þeir telja sig hafa náð. Höfnun Alþings á þessum samningum er forsenda þess að sest verði að samningaborði aftur. Bretar og Hollendingar eiga ekki völ á öðru en taka boði um nýjan samning. 

Að sjálfsögðu verður höfnun Alþingis á Icesave samningunum áskorun fyrir íslenska þjóð. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar stæðu andspænis ofurvaldi fyrrverandi nýlenduþjóða. Í landhelgisdeilum fyrr á árum hafði þessi fámenna þjóð þó fullnaðarsigur. Ein meginforsenda þeirra farsælu málalykta var að þá stóð þjóðin þétt saman. Það er skylda okkar Íslendinga nú, hvar í flokki sem við erum, að standa saman gegn þessum ótæku Icesavesamningum. Með samstöðu munum við snúa glímu sem nú stefnir í uppgjöf í sókn. Ég skora á íslensk stjórnvöld að sýna samstöðu með þjóð sinni.

Morgunblaðið 13. ágúst 2009


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er algerlega sammála, við meigum ekki láta kúga okkur í þessu máli.

Síðan mín

Kristjan Sigurjonsson (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 11:28

2 Smámynd: Frosti Sigurjónsson

Ég er sammála hverju orði. Takk!

Frosti Sigurjónsson, 13.8.2009 kl. 21:49

3 Smámynd: Reynir Jóhannesson

Kristján og Frosti, ég þakka ykkur kærlega fyrir orðsendingarnar. Orð dagsins er „samstaða“... mjög tímabært að mínu mati! 13. ágúst 2009 bókaði sig svo sannarlega inn í sögubækurnar.

Reynir Jóhannesson, 13.8.2009 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband