Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2008
"Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað"
8.7.2008 | 14:00
Það er nú bara sanngjarnt að taka það fram í fréttaflutningi að ráðherrar fá ekki öll mál inn á sitt borð. En rétt er eins og Björn segir sjálfur í þessu viðtali á Mbl.is að:
Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað og það er tekin afstaða til hennar og farið yfir málin og komist að niðurstöðu.
Hins vegar þegar málsmeðferðin er skoðuð í máli Paul Ramses er ekki hægt að sjá að það hafi verið skoðað eins og maður hefði ætlast til. Ekki var tekin afstaða til umsóknarinnar heldur reynt að færa málið aftur til Ítalíu.
Björn Bjarnason hefur ekki verið þekktur fyrir afstöðu- eða aðgerðaleysi. Því munum við vonandi á næstu dögum verða upplýst um afgreiðslu ráðherra í þessu máli.
Ráðherra ókunnugt um málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
„Skákmeistarinn“ Paul Ramses
6.7.2008 | 23:55
Keníamaðurinn Paul Ramses var handtekinn og rekinn úr landi fyrir það að vera hér í leyfisleysi. Eiginkona hans er hér enn í óleyfi vegna fæðingar barns þeirra hjóna. Ítalía á að fjalla um mál Ramses samkvæmt Dyflinnarsamningnum. En samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er hægt að gera undantekningar á þeim grundvelli að umsækjandi eigi fjölskyldu í öðru landi. Paul Ramses á einmitt fjölskyldu á Íslandi. En það vilja íslensk yfirvöld ekki viðurkenna þar sem eiginkona hans og barn eru hér án leyfis. Því kemur engin undantekning til greina í þessu tilfelli.
Við verðum að gera þá kröfu á stjórnsýsluna og ráðamenn að þeir taki ekki ákvörðun í máli án þess að það hafi verið tekið til skoðunar. Hins vegar má vel vera að niðurstaðan hefði orðið sú að synja ætti umsókn Paul Ramses. En málið var ekki tekið fyrir þar sem yfirvöld túlka Dyflinnarsamninginn sér í hag. Samningurinn bannar Íslendingum hins vegar ekki að taka fyrir mál Ramses, heldur eru þarna mannréttindasjónarmið á ferð sem tryggja honum málsmeðferð í að minnsta kosti einu landi innan Schengen svæðisins.
Ísland reynir nú á dögum að finna stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Er þetta aðkoma Íslands að alþjóðasamvinnu? Við búum í heimi þar sem margt slæmt gerist. Íslendingar geta slökkt á útvörpum og sjónvörpum og leitt hjá sér óþægilegar fréttir og upplýsingar. Við þurfum ekki að taka fyrir mál Paul Ramses frekar enn nokkurra annarra. Þetta er algjörlega okkar eigið val. En spurning er hvort yfirvöld eigi að hafa þann valmöguleika að geta leitt hjá sér óþægilegt mál með þessum hætti. Það kemur ekki fram í neinum tilkynningum eða yfirlýsingum að Paul Ramses og fjölskylda hans hafi verið íslensku samfélagi til vandræða. Heldur er vísað til samninga og samkomulaga til að færa rök fyrir ákvörðun yfirvalda.
Íslenskir stjórnmálamenn geta staðið fyrir björgun erlendra skákmanna (Bobby Fisher) og veitt þeim íslenskan ríkisborgararétt og vegabréf án fyrirhafnar. Var það kannski réttmæt undantekning að mati forstjóra Útlendingastofnunar eða hæstvirtum dómsmálaráðherra? Ef mál Bobby Fishers var tekið fyrir sé ég enga ástæðu til að vísa máli Paul Ramses frá. Ef eiginkona Ramses fékk dvalarleyfi í Svíþjóð til ársins 2012, set ég spurningamerki við synjun íslenskra yfirvalda á umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi. Hvað er það sem Svíar sætta sig við en ekki Íslendingar?
Þar sem þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir legg ég til að við sendum Ramses á skáknámskeið og höldum hér mót honum til heiðurs. Látum alla skákmeistara Íslands tapa fyrir nýja skákmeistaranum Hr. Ramses. Með því gæti kannski fylgt íslenskt vegabréf. Stundum er allt hægt á Íslandi... en þá augljóslega bara stundum og þegar það hentar ákveðnum aðilum.
Nú er bara að vona að forsætisráðherra Geir H. Haarde geri athugun á þessari málsmeðferð. Enda full ástæða til.
Deiglan.com, 07. júlí 2008.