Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
Sjálfstæðisbrautin í Reykjavík
26.8.2008 | 09:46
Flestir eru orðnir langþreyttir á því ástandi sem ríkt hefur að undanförnu við stjórn borgarinnar. Eftir síðustu sviptingar í borgarstjórn standa þó vonir til þess að umrótatímabil sé senn á enda og að við taki tímabil stöðugleika og festu.
Fyrir næstu kosningar kemur það væntanlega í hlut kjósenda að velja starfhæfan hóp fólks á framboðslista flokkanna. En þótt margir kjósendur bíði eftir tækifæri til að stuðla að breytingum kemur það ekki í veg fyrir að núverandi fulltrúar hafa enn tíma til að sýna og sanna að þeir geta staðið að ýmsum góðum verkum. Enn eru tæp tvö ár í næstu sveitarstjórnakosningar og margt hægt að gera á þeim tíma.
Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn ætti að marka þá stefnu að leita allra leiða til að lækka útsvar sveitarfélagsins með það fyrir augum að við lok kjörtímabilsins verði það orðið það lægsta á landinu. Fasteignaskattinn ætti einnig að lækka. Með þessu mundi Reykjavíkurborg endurheimta fyrri stöðu sína eins og hún var fyrir valdatíma R- listans, en þá voru þessir skattar jafnan lægstir í Reykjavík. Á móti skattalækkunum kæmi hagræðing í rekstri. Forðast þarf fleiri slys eins og smartkortaævintýri R-listans. Borgin er stórt fyrirtæki og í stórum fyrirtækjum finnast oft margar leiðir til hagræðingar án þess að skerða þurfi þjónustu. Þótt markmið Reykjavíkurborgar sé fyrst og fremst að þjóna íbúum sínum þá þarf jafnframt að kappkosta að fara sem best með skattfé borgaranna. Það er skylda borgarfulltrúa að fara vel með það skattfé sem þeim er trúað fyrir. Þeirri skyldu mega þeir ekki sinna með kæruleysi.
Sem langstærsta sveitarfélag landsins ætti Reykjavíkurborg að mörgu leyti að hafa betri möguleika á að standa að hagkvæmari rekstri en þau sem minni eru. Afleiddur rekstur og stöðug skuldasöfnun á valdatíma R- listans mun hins vegar takmarka framkvæmdagetu borgarinnar á næstu árum. Það þarf meira en eitt kjörtímabil til að vinda ofan af þeirri óráðsíu sem þá var stofnað til.
Nýs meirihluta bíður því ærið hlutverk að koma fjámálum borgarinnar í viðunandi horf. Af fréttum að dæma virðist nýr borgarstjóri ætla að taka hlutverk sitt alvarlega þegar kemur að fjármálastjórninni. Það er afar mikilvægt að þar takist vel til svo að Reykjavíkurborg geti á ný orðið það fyrirmyndarsveitarfélag sem stærð og stöðu hennar sæmir. Það hlýtur að vera keppikefli þeirra sem með stjórn borgarinnar fara að borgin veiti íbúum sínum ávallt fyrirmyndarþjónustu á sem hagkvæmastan hátt.
Deiglan.com, 26. ágúst 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)