Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009
Styðjum hugrakka þingmenn
1.11.2009 | 20:45
Ég vil byrja á því að senda mínum flokksformanni, Bjarna Benediktssyni, nokkur skammarorð. Þótt ég geri ráð fyrir því að hann hafi ekki ætlað sér að gera lítið úr þeim stjórnarþingmönnum sem standa fyrir ákveðnum klofningi í stjórnarliðinu þegar kemur að Icesave málinu, þá átti hann ekki að tala um uppreisn stjórnarliða sem einhvern "sirkus". Mig minnir að hann hafi notað einmitt það orð í kvöldfréttum Stöðvar 2. Rangt orðaval að mínu mati, því ég held að gagnrýni hans hafi snúist um að ríkisstjórnin hafi lofað Bretum og Hollendingum meirihluta í málinu.
Sýnum þessum hugrökku þingmönnum að þjóðin stendur með þeim ef þeir styðja baráttuna um sanngjarnari Icesave lausn. Bjarni Benediktsson ætti að senda þeim hvatningu í stað þess að tala um "sirkus".
Nú þurfum við að skrifa greinar í blöðin og blogga þessum þingmönnum til stuðnings. Við eigum að senda þeim tölvupóst, SMS eða hringja og þakka þeim fyrir sitt framlag. Til dæmis ætluðu ALLIR þingmenn Samfylkingar að samþykkja þessa ósanngjörnu samninga án þess að vita neitt um innihald þeirra. Það sama átti við um hluta af þingflokki VG, en nokkrir tóku sig samt til og stóðu fyrir því sem seinna hefur verið kallað andspyrnuhreyfing í VG.
Ef þingmenn verða allir á endanum vel upplýstir í Icesave málinu hef ég ekki miklar áhyggjur af atkvæðagreiðslunni. Þá munu þeir sjá hversu ósanngjarnt þetta samkomulag við Breta og Hollendinga er, áhættan og óvissan er öll á höndum Íslendinga. Fyrirvararnir sem Alþingi setti við ríkisábyrgðina í ágúst hafa verið eyðilagðir að mati sérfræðinga sem hafa tjáð sig undanfarna daga.
Gefur ekki upp Icesave-afstöðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |