Kjósum tvo varaformenn

Nú er tími endurnýjunar og breytinga á Íslandi og er Sjálfstæðisflokkurinn ekki undanskilinn í þeim efnum. Að mínu mati ber að gera tilteknar breytingar á  skipulagi flokksins. Ég vonast til að sjá mannabreytingu í þingmannahópi flokksins eftir prófkjör, nýja forystu og breytt flokksskipulag.

Það er eðlileg og augljós krafa flokksmanna að farið verði prófkjörsleiðina fyrir komandi alþingiskosningar. Gefa þarf stjórnmálaöflum tíma til að leyfa slíkum lýðræðislegum aðferðum að virka. Það var því vægast sagt fáranlegt að heyra tal tiltekinna vinstrimanna um að óþarft sé að veita sjálfstæðismönnum of mikinn tíma til að endurnýja forystu sína. Slíkt harðræðistal ber að fordæma. Stöndum vörð um lýðræðið og breytum til hins betra en ekki bara breytinganna vegna.

Nú bendir flest til þess að prófkjör verða haldin í Reykjavík og tilkynningar berast um framboð í forystu flokksins. Endurnýjunin í Sjálfstæðisflokknum er hafin. En ótengt því hvaða einstaklingar gefa kost á sér tel ég að breytt skipulag geti orðið flokknum til hagsbóta. Hingað til hefur það tíðkast að vera með einn varaformann. Hins vegar eru til dæmi hér á landi sem og erlendis um að stjórnmálasamtök kjósi sér tvo varaformenn, það er að segja 1. og 2. varaformann. Sá fyrsti er aðal staðgengill formannsins og pólitískur talsmaður flokksins út á við. Annar varaformaður fær önnur verkefni eins og til dæmis að sinna og efla innra starf flokksins. Að mínu mati getur slíkt skipulag hentað Sjálfstæðisflokknum vel og mun ég leggja fram breytingatillögu þess efnis á komandi landsfundi. 

Hvað varðar aðra þætti í flokksskipulaginu hefur verið nefnt að skýra þarf betur hlutverk og verksvið miðstjórnar og málefnanefnda. Allir virkir flokksfélagar vita af því öfluga nefndarstarfi sem fer fram í stefnumótun flokksins og ber að mínu mati að virkja það afl enn frekar og veita því skýrari umboð og hlutverk.

Það eru því fjölmörg verkefni sem sjálfstæðismenn þurfa að takast á við á næstu vikum og mánuðum, en markmiðið ætti ávallt að miða að því að virkja tengslin við grasrótina.

 
Deiglan.com, 2. febrúar 2009. 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband