Icesave – gamla Steingrím J. í baráttuna aftur

Mér blöskrar sú staða sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum. Að undanförnu hefur framkvæmdavaldið ætlast til þess að háttvirtir þingmenn taki ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar án þess að fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Mér ofbýður aðför ríkisstjórnarinnar að hinu lýðræðislega kjörna Alþingi.

Allar upplýsingar á borðinu?
Nýlega hélt ríkisstjórnin því fram að „öll gögn [væru] komin á borðið“ í Icesave málinu og þingmenn því með allar upplýsingar í höndum. Stuttu eftir það birti Morgunblaðið álit bresku lögfræðistofunnar Michon de Reyja þar sem meðal annars kemur fram að ábyrgð Íslendinga í Icesave málinu er síður en svo ótvíræð. Þetta álit hafði þá hvorki verið birt né afhent þingmönnum.

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að þetta skjal væri ómerkilegt, en svo bað hæstvirtur utanríkisráðherra Alþingi forláts fyrir þau mistök að hafa ekki veitt þingmönnum aðgang að skýrslunni. Þessi afsökunarbeiðni er kærkomin en samt eflist við uppákomuna tortryggni gagnvart íslenskum yfirvöldum. Þessu vinnulagi verður að breyta, því hvað annað kann að hafa „gleymst“ að birta eða afhenda þingmönnum?

Icesave – samning en ekki þennan
Þótt Alþingi og ríkisstjórn beri fyrst og fremst að gæta hags íslensku þjóðarinnar er líka vert að hafa í huga að það er engan veginn í hag Breta eða Hollendinga að ná samningi sem íslenska þjóðin getur ekki staðið við. Í núverandi Icesave-samning skortir varnagla.  Öll áhætta af því t.d. hvernig eignir Landsbankans nýtast er á okkur. Og ennþá skortir alla trygga yfirsýn yfir getu okkar til að efna slíkan samning. Mér finnst makalaust að kjörnir þjóðfulltrúar treysti sér til að taka á þjóðina skuldir sem bæði hvíla á ótraustum lagagrunni og að auki er mikil óvissa um að við getum risið undir. Það er að segja staðið undir þannig að þjóðin nái að þrífast þolanlega og eðlilega.

Ekkert í  viðurkenndum venjum alþjóðasamskipta er því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geti tekið málið upp á ný við Breta og Hollendinga.  Vel er hægt að vera þeirrar skoðunar að reyna beri samningaleið til þrautar, þótt núverandi samningur þyki ótækur. Það má vera að Steingrímur viti ekki hvað hann eigi að segja við bresku og hollensku kollega sína þegar þeir óska eftir svörum við höfnun Alþingis á Icesave samkomulaginu. En ég legg þá til að ráðherrann segi einfaldlega: „Móti okkar von og vilja hefur komið í ljós að Alþingi Íslendinga telur samninginn ekki sanngjarnan. Því  þurfum við - ef reyna á samningaleiðina frekar - að setjast niður á ný og breyta þeim atriðum sem standa í vegi fyrir samþykkt þingsins.“  Flóknara þarf þetta ekki að vera.

Í stað þess að undirbúa slík svör og fara nú að tala máli Íslendinga, eftir að hafa séð andstöðu þingsins og almennings, reynir Steingrímur með sinni miklu ræðusnilli en jafnframt ófyrirleitni og falsrökum (þ.m.t. óábyrgu tali um einangrun Íslands) að setja þumalskrúfur á þingmenn svo þeir samþykki samninginn gegn samvisku sinni og betri vitund. Framkvæmdavaldið má ekki hóta Alþingi eða gera þingmenn ábyrga fyrir ótækum samningi ríkistjórnarinnar við Breta og Hollendinga.

Í þágu Íslands aftur
Það er með ólíkindum hvernig Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, hefur á örfáum mánuðum tekist að fyrirgera miklu trausti sem hann hafði áunnið sér í stjórnarandstöðu.  Hvernig hann hefur getað horfið frá skoðunum sínum í jafnstórum málum og Icesave og ESB. Á tímum sem þessum þurfum við stjórnmálamenn sem sýna stefnufestu og þrautsegju - og missa ekki móðinn í miðri baráttu. Ásmundur Daðason, nýr þingmaður VG, sagði á þingi á dögunum að honum væri ógnað með því að stjórnarslit yrðu ef hann færi eftir sannfæringu sinni og stæði að tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ásmundur hafði kjark til að opinbera þessa stöðu sína á fundi Alþingis og yfirgaf salinn í kjölfarið. Sagðist hann ekki ætla að taka þátt í umræðunni, en kæmi engu að síður til að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. Það ber að þakka Ásmundi fyrir að þora að standa gegn slíku ofbeldi framkvæmdavaldsins gagnvart óbreyttum þingmönnum.

Ísland varð ekki sjálfstætt ríki né náði hvað eftir annað árangri í landhelgismálinu án baráttu.  Þá var ekki klifað á því að „betra [væri] að semja en að deila“.  Ég heimta gamla Steingrím J. til baka á þing. Þann Steingrím sem berst fyrir eigin stefnu í ESB og Icesave málum, eins og hann lýsti henni fyrir kosningar – en þrælar ekki fyrir vagni Samfylkingarinnar og talar máli Breta og Hollendinga meira en okkar landa sinna. Ég hrósa Framsóknarmönnum og þingmanni VG, Ásmundi Daðasyni, fyrir aðdáunarverða frammistöðu á þingi og ég hvet Sjálfstæðismenn til að halda áfram að leggja eigin tillögur fyrir þing fjölskyldum og fyrirtækjum til bjargar, því lausnirnar virðast ekki berast úr herbúðum vinstriflokkana.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 17. júlí 2009.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband