Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
Icesave – gamla Steingrím J. í baráttuna aftur
21.7.2009 | 23:21
Mér blöskrar sú staða sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum. Að undanförnu hefur framkvæmdavaldið ætlast til þess að háttvirtir þingmenn taki ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar án þess að fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Mér ofbýður aðför ríkisstjórnarinnar að hinu lýðræðislega kjörna Alþingi.
Allar upplýsingar á borðinu?
Nýlega hélt ríkisstjórnin því fram að öll gögn [væru] komin á borðið í Icesave málinu og þingmenn því með allar upplýsingar í höndum. Stuttu eftir það birti Morgunblaðið álit bresku lögfræðistofunnar Michon de Reyja þar sem meðal annars kemur fram að ábyrgð Íslendinga í Icesave málinu er síður en svo ótvíræð. Þetta álit hafði þá hvorki verið birt né afhent þingmönnum.
Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að þetta skjal væri ómerkilegt, en svo bað hæstvirtur utanríkisráðherra Alþingi forláts fyrir þau mistök að hafa ekki veitt þingmönnum aðgang að skýrslunni. Þessi afsökunarbeiðni er kærkomin en samt eflist við uppákomuna tortryggni gagnvart íslenskum yfirvöldum. Þessu vinnulagi verður að breyta, því hvað annað kann að hafa gleymst að birta eða afhenda þingmönnum?
Icesave samning en ekki þennan
Þótt Alþingi og ríkisstjórn beri fyrst og fremst að gæta hags íslensku þjóðarinnar er líka vert að hafa í huga að það er engan veginn í hag Breta eða Hollendinga að ná samningi sem íslenska þjóðin getur ekki staðið við. Í núverandi Icesave-samning skortir varnagla. Öll áhætta af því t.d. hvernig eignir Landsbankans nýtast er á okkur. Og ennþá skortir alla trygga yfirsýn yfir getu okkar til að efna slíkan samning. Mér finnst makalaust að kjörnir þjóðfulltrúar treysti sér til að taka á þjóðina skuldir sem bæði hvíla á ótraustum lagagrunni og að auki er mikil óvissa um að við getum risið undir. Það er að segja staðið undir þannig að þjóðin nái að þrífast þolanlega og eðlilega.
Ekkert í viðurkenndum venjum alþjóðasamskipta er því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geti tekið málið upp á ný við Breta og Hollendinga. Vel er hægt að vera þeirrar skoðunar að reyna beri samningaleið til þrautar, þótt núverandi samningur þyki ótækur. Það má vera að Steingrímur viti ekki hvað hann eigi að segja við bresku og hollensku kollega sína þegar þeir óska eftir svörum við höfnun Alþingis á Icesave samkomulaginu. En ég legg þá til að ráðherrann segi einfaldlega: Móti okkar von og vilja hefur komið í ljós að Alþingi Íslendinga telur samninginn ekki sanngjarnan. Því þurfum við - ef reyna á samningaleiðina frekar - að setjast niður á ný og breyta þeim atriðum sem standa í vegi fyrir samþykkt þingsins. Flóknara þarf þetta ekki að vera.
Í stað þess að undirbúa slík svör og fara nú að tala máli Íslendinga, eftir að hafa séð andstöðu þingsins og almennings, reynir Steingrímur með sinni miklu ræðusnilli en jafnframt ófyrirleitni og falsrökum (þ.m.t. óábyrgu tali um einangrun Íslands) að setja þumalskrúfur á þingmenn svo þeir samþykki samninginn gegn samvisku sinni og betri vitund. Framkvæmdavaldið má ekki hóta Alþingi eða gera þingmenn ábyrga fyrir ótækum samningi ríkistjórnarinnar við Breta og Hollendinga.
Í þágu Íslands aftur
Það er með ólíkindum hvernig Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, hefur á örfáum mánuðum tekist að fyrirgera miklu trausti sem hann hafði áunnið sér í stjórnarandstöðu. Hvernig hann hefur getað horfið frá skoðunum sínum í jafnstórum málum og Icesave og ESB. Á tímum sem þessum þurfum við stjórnmálamenn sem sýna stefnufestu og þrautsegju - og missa ekki móðinn í miðri baráttu. Ásmundur Daðason, nýr þingmaður VG, sagði á þingi á dögunum að honum væri ógnað með því að stjórnarslit yrðu ef hann færi eftir sannfæringu sinni og stæði að tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ásmundur hafði kjark til að opinbera þessa stöðu sína á fundi Alþingis og yfirgaf salinn í kjölfarið. Sagðist hann ekki ætla að taka þátt í umræðunni, en kæmi engu að síður til að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. Það ber að þakka Ásmundi fyrir að þora að standa gegn slíku ofbeldi framkvæmdavaldsins gagnvart óbreyttum þingmönnum.
Ísland varð ekki sjálfstætt ríki né náði hvað eftir annað árangri í landhelgismálinu án baráttu. Þá var ekki klifað á því að betra [væri] að semja en að deila. Ég heimta gamla Steingrím J. til baka á þing. Þann Steingrím sem berst fyrir eigin stefnu í ESB og Icesave málum, eins og hann lýsti henni fyrir kosningar en þrælar ekki fyrir vagni Samfylkingarinnar og talar máli Breta og Hollendinga meira en okkar landa sinna. Ég hrósa Framsóknarmönnum og þingmanni VG, Ásmundi Daðasyni, fyrir aðdáunarverða frammistöðu á þingi og ég hvet Sjálfstæðismenn til að halda áfram að leggja eigin tillögur fyrir þing fjölskyldum og fyrirtækjum til bjargar, því lausnirnar virðast ekki berast úr herbúðum vinstriflokkana.
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 17. júlí 2009.
Þrýst á Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.8.2009 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðild að Evrópusambandinu – eða ekki
16.7.2009 | 14:51
Ég get einungis talað fyrir mig sjálfan. En sem ungur Íslendingur verð ég að taka afstöðu til hvert ég óska að þjóð mín stefni. Eftir að hafa skoðað m.a. Evrópusambandið (ESB) í mínu þriggja ára námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í alþjóðasamskiptum við sama háskóla, hef ég tekið þá afstöðu að þjóðinni sé betur borgið utan sambandsins. Það getur aldrei verið betra að aðrir ráði meiru um málefni Íslendinga en þeir sjálfir. Að mínu mati sést líka glögglega í Icesave málinu hvernig stóru ríkin í sambandinu hegða sér ef upp kemur erfið staða fyrir ráðamenn þeirra. Þeir víla ekki fyrir sér að troða á þeim sem minni eru. Við megum ekki líta á þróun alþjóðasamstarfs Íslands út frá óskhyggju heldur raunhyggju. Líta á alþjóðasamfélagið eins og það er, en ekki eins og mörg okkar kysu að það væri, og móta afstöðu út frá því.
Sveigjanleiki og valkostir eru meðal styrkleika Íslands sem smáþjóðar í alþjóðasamfélaginu. Við þurfum að huga vandlega að öllu alþjóðasamstarfi og láta þar ekki troða á okkur, eins og Icesave málið sýnir glögglega að alltaf er hætta á. Það getur virst skína mikil fegurð úr laufskrýddum skógi tilskipana og reglugerða ESB sem samtvinnar allt og alla. En sú fegurð hvarf snögglega þegar upp kom galli á regluverki ESB um innlánstryggingar. Þá fór lítið fyrir samstöðunni og ESB var ekki lengi að koma ábyrgðinni yfir á Ísland í þágu kröftugra aðildarríkja sinna. Mér hefur verið sagt að slíka meðferð fengjum við ekki sem aðildarríki sambandsins, en slíkt getur enginn vitað með vissu. Og ég vil heldur ekki stuðla að því að Ísland verði hluti af ríkjasambandi sem hegðar sér með svo óábyrgum hætti gagnvart nágrönnum í þröngri stöðu.
Ég er síður en svo andstæðingur Evrópusamstarfs. Hvenær kom sá dagur að samstarf við önnur ríki álfunnar þýddi eingöngu aðild að ESB? Hér á landi þarf að standa vörð um öflugt samstarf við Evrópu en einnig aðrar heimsálfur sem Íslendingum hugnast að eiga samstarf við.
Samþykkt að senda inn umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nafnlausi kröfuhafinn
5.7.2009 | 15:24
Í allri umræðunni um efnahagsmál á Íslandi eru ákveðin orð eða heiti notuð reglulega. Sem dæmi má nefna: erlendir fjárfestar, kröfuhafar bankanna og eigendur jöklabréfa. Hvernig stendur eiginlega á þessu endalausa nafnleysi?
Upplýsingar um eignarhald
Það eru ekki vélmenni á bak við orðin fjárfestir, eigandi eða kröfuhafi. Heldur einstaklingar eða fyrirtæki/sjóðir í eigu ákveðinna einstaklinga. Stundum finnst mér upplýsingar um eignarhald vera flokkaðar sem top secret eða þær séu hreinlega ófáanlegar. Hvernig stendur á því að svona erfitt reynist að birta lista yfir t.d. kröfuhafa íslensku bankanna eða eigendur jöklabréfa? Einhver hlýtur að vera með yfirlit yfir eigendur þessara þjóðhagslega mikilvægu eininga á fjármálamarkaðnum hérlendis sem njóta m.a. ríkisábyrgðar. Eða sér Fjármálaeftirlitið (FME) um eftirlit með kerfi sem það veit afskaplega lítið um?
Hver er ábyrgð erlendra fjárfesta?
Ég heyri oft stjórnmálamenn og aðra tala um að vernda erlenda fjárfesta/kröfuhafa svo þeir muni þora að fjárfesta hér á ný í framtíðinni. Voru það ekki einmitt erlendir fjárfestar sem tóku ákvörðun um að lána íslenskum bönkum í einkaeigu yfir 15 þúsund milljarða? Þarf ekki að gera athugasemd við það að einhver tók ákvörðum um að lána íslenskum bönkum slíkar fjárhæðir? Ég vil gjarnan fá að aðgreina hvaða erlendu fjárfesta ég tek þátt í að vernda sem skattgreiðandi. Það er ljóst að þeir sem tóku áhættuna á því að fjárfesta svona gríðarlega hér á landi verða einnig að axla ábyrgð.
Íslenska ríkið og þar með íslenskir skattgreiðendur sáu fyrir tryggingu allra innistæðna í íslenskum bönkum. Fjárfestar, eða kröfuhafar bankanna, treystu á ríkisábyrgðina og tryggðu ekki krónu sjálfir. Ég á rétt á að vita hvaða kröfuhafar hafa notið íslensku ríkisábyrgðarinnar. Að mínu mati verður hið víðfræga gegnsæi að vera í lykilhlutverki þegar kemur að endurreisn íslenska efnahagslífsins sem og þess alþjóðlega. Almenningi eða að minnsta kosti yfirvöldum ber að eiga allar upplýsingar um eignarhald svo hægt sé að veita kerfinu almennilegt aðhald og öflugt eftirlit.
Frelsi.is, 26. júní 2009.