Brennum bankana?
26.10.2008 | 17:21
Á forsíðu Fréttablaðsins er mynd af mótmælendum gærdagsins. Þar er búið að kveikja í fána Landsbankans og fólk hrópaði brennum bankana.
Fleiri þúsund manns hafa unnið við uppbyggingu banka hér á landi og flestir þeirra starfa þar enn. Það er alveg ljóst að þeir mótmælendur sem stóðu fyrir fánabrennunni vissu að slíkar fréttir færu beint á aðallista alþjóðlegra fjölmiðla. Mótmælandinn segir að bankafólkið hafi gengið of langt, en nú hefur mótmælandinn sjálfur gengið of langt!
Mistök að færa Kaupþing ekki úr landi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hvert stefnir Reykjavík?
21.10.2008 | 17:26
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Olíuverð lækkar = neyðarástand?
16.10.2008 | 20:58
Fatið niður fyrir 70 dollara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Failin' Palin
26.9.2008 | 13:03
Andrew Sullivan á The Daily Dish í dag:
All you can say is: unbelievable. Except it's true. She is the vice-presidential candidate of a national political party. Seriously:
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Tækifæri á fasteignamarkaði
17.9.2008 | 12:03
Nú á dögum ríkir mikil niðursveifla hvort sem um fasteignamarkað eða almennan fjármálamarkað er að ræða. Fasteignamarkaðurinn liggur niðri og engin tákn vísa til annars en algjörs hruns á byggingamarkaði. Hins vegar er til staðar vandi á fasteignamarkaði sem varðar óíbúðarhæft húsnæði sem leigt er út.
Ljóst er að margt fólk á Íslandi býr í óíbúðarhæfu húsnæði. Nauðsynlegt er að koma þeim úr slíkri aðstöðu og yfir á hinn almenna markað. Sögur herma að kjallarar séu leigðir út þar sem lofthæðin nær niður í allt að 180 cm og rakaskemmdir eru miklar, svo dæmi um galla séu nefnd. Einnig hafa fjölmiðlar oftar en einu sinni fjallað um verktaka sem leigja út íbúðir í húsnæði sem skilgreint er sem iðnaðarhúsnæði. Bæði einstaklingar og fjölskyldur með ung börn leggja það á sig að búa við slíkar aðstæður og ástæðan er að öllum líkindum hátt leiguverð á almennum markaði.
Á tímum offramboðs á lausum fasteignum er kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að gera átak í þessum málefnum. Að hefjast handa við að herða löggjöf og eftirlit með leiguíbúðum sem standa ekki undir settum skilyrðum um ástand íbúðarhúsnæðis. Það er óásættanlegt að fólk hér á landi geti leigt út húsnæði sem bannað er að búa í án þess að stjórnvöld aðhafist nokkuð.
Mikilvægt er fyrir frjálsan markað að leikreglur séu sem skýrastar, eftirlitið öflugt og ólöglegur eða svartur markaður sem minnstur. Ekki á að leyfa áframhaldandi leigu á húsnæði sem bannað er að búa í og er ábyrgðin í höndum stjórnvalda hvað eftirlitið varðar. Við framkvæmd á eftirliti mætti bjóða þeim leigjendum sem finnast í slíku ólöglegu húsnæði tímabundið hærri húsaleigubætur þegar það fer inn á hinn almenna leigumarkað. Og á sama tíma og komið er til móts við leigjendur væri réttast að beita viðurlögum gegn þeim aðilum sem brjóta sett lög um leiguhúsnæði.
Ef núverandi löggjöf er gölluð eða of takmörkuð þarf Alþingi einfaldlega að semja ný lög sem fyrst. Sem auka afleiðing fyrir fasteignamarkaðinn yrði mörg hundruð lausum íbúðum komið í verð.
Deiglan.com, 17. september 2008
Sjálfstæðisbrautin í Reykjavík
26.8.2008 | 09:46
Flestir eru orðnir langþreyttir á því ástandi sem ríkt hefur að undanförnu við stjórn borgarinnar. Eftir síðustu sviptingar í borgarstjórn standa þó vonir til þess að umrótatímabil sé senn á enda og að við taki tímabil stöðugleika og festu.
Fyrir næstu kosningar kemur það væntanlega í hlut kjósenda að velja starfhæfan hóp fólks á framboðslista flokkanna. En þótt margir kjósendur bíði eftir tækifæri til að stuðla að breytingum kemur það ekki í veg fyrir að núverandi fulltrúar hafa enn tíma til að sýna og sanna að þeir geta staðið að ýmsum góðum verkum. Enn eru tæp tvö ár í næstu sveitarstjórnakosningar og margt hægt að gera á þeim tíma.
Nýi borgarstjórnarmeirihlutinn ætti að marka þá stefnu að leita allra leiða til að lækka útsvar sveitarfélagsins með það fyrir augum að við lok kjörtímabilsins verði það orðið það lægsta á landinu. Fasteignaskattinn ætti einnig að lækka. Með þessu mundi Reykjavíkurborg endurheimta fyrri stöðu sína eins og hún var fyrir valdatíma R- listans, en þá voru þessir skattar jafnan lægstir í Reykjavík. Á móti skattalækkunum kæmi hagræðing í rekstri. Forðast þarf fleiri slys eins og smartkortaævintýri R-listans. Borgin er stórt fyrirtæki og í stórum fyrirtækjum finnast oft margar leiðir til hagræðingar án þess að skerða þurfi þjónustu. Þótt markmið Reykjavíkurborgar sé fyrst og fremst að þjóna íbúum sínum þá þarf jafnframt að kappkosta að fara sem best með skattfé borgaranna. Það er skylda borgarfulltrúa að fara vel með það skattfé sem þeim er trúað fyrir. Þeirri skyldu mega þeir ekki sinna með kæruleysi.
Sem langstærsta sveitarfélag landsins ætti Reykjavíkurborg að mörgu leyti að hafa betri möguleika á að standa að hagkvæmari rekstri en þau sem minni eru. Afleiddur rekstur og stöðug skuldasöfnun á valdatíma R- listans mun hins vegar takmarka framkvæmdagetu borgarinnar á næstu árum. Það þarf meira en eitt kjörtímabil til að vinda ofan af þeirri óráðsíu sem þá var stofnað til.
Nýs meirihluta bíður því ærið hlutverk að koma fjámálum borgarinnar í viðunandi horf. Af fréttum að dæma virðist nýr borgarstjóri ætla að taka hlutverk sitt alvarlega þegar kemur að fjármálastjórninni. Það er afar mikilvægt að þar takist vel til svo að Reykjavíkurborg geti á ný orðið það fyrirmyndarsveitarfélag sem stærð og stöðu hennar sæmir. Það hlýtur að vera keppikefli þeirra sem með stjórn borgarinnar fara að borgin veiti íbúum sínum ávallt fyrirmyndarþjónustu á sem hagkvæmastan hátt.
Deiglan.com, 26. ágúst 2008.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað"
8.7.2008 | 14:00
Það er nú bara sanngjarnt að taka það fram í fréttaflutningi að ráðherrar fá ekki öll mál inn á sitt borð. En rétt er eins og Björn segir sjálfur í þessu viðtali á Mbl.is að:
Það verður að skoða réttarstöðu hvers og eins sem kemur hingað og það er tekin afstaða til hennar og farið yfir málin og komist að niðurstöðu.
Hins vegar þegar málsmeðferðin er skoðuð í máli Paul Ramses er ekki hægt að sjá að það hafi verið skoðað eins og maður hefði ætlast til. Ekki var tekin afstaða til umsóknarinnar heldur reynt að færa málið aftur til Ítalíu.
Björn Bjarnason hefur ekki verið þekktur fyrir afstöðu- eða aðgerðaleysi. Því munum við vonandi á næstu dögum verða upplýst um afgreiðslu ráðherra í þessu máli.
Ráðherra ókunnugt um málið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
„Skákmeistarinn“ Paul Ramses
6.7.2008 | 23:55
Keníamaðurinn Paul Ramses var handtekinn og rekinn úr landi fyrir það að vera hér í leyfisleysi. Eiginkona hans er hér enn í óleyfi vegna fæðingar barns þeirra hjóna. Ítalía á að fjalla um mál Ramses samkvæmt Dyflinnarsamningnum. En samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er hægt að gera undantekningar á þeim grundvelli að umsækjandi eigi fjölskyldu í öðru landi. Paul Ramses á einmitt fjölskyldu á Íslandi. En það vilja íslensk yfirvöld ekki viðurkenna þar sem eiginkona hans og barn eru hér án leyfis. Því kemur engin undantekning til greina í þessu tilfelli.
Við verðum að gera þá kröfu á stjórnsýsluna og ráðamenn að þeir taki ekki ákvörðun í máli án þess að það hafi verið tekið til skoðunar. Hins vegar má vel vera að niðurstaðan hefði orðið sú að synja ætti umsókn Paul Ramses. En málið var ekki tekið fyrir þar sem yfirvöld túlka Dyflinnarsamninginn sér í hag. Samningurinn bannar Íslendingum hins vegar ekki að taka fyrir mál Ramses, heldur eru þarna mannréttindasjónarmið á ferð sem tryggja honum málsmeðferð í að minnsta kosti einu landi innan Schengen svæðisins.
Ísland reynir nú á dögum að finna stöðu sína í alþjóðasamfélaginu. Er þetta aðkoma Íslands að alþjóðasamvinnu? Við búum í heimi þar sem margt slæmt gerist. Íslendingar geta slökkt á útvörpum og sjónvörpum og leitt hjá sér óþægilegar fréttir og upplýsingar. Við þurfum ekki að taka fyrir mál Paul Ramses frekar enn nokkurra annarra. Þetta er algjörlega okkar eigið val. En spurning er hvort yfirvöld eigi að hafa þann valmöguleika að geta leitt hjá sér óþægilegt mál með þessum hætti. Það kemur ekki fram í neinum tilkynningum eða yfirlýsingum að Paul Ramses og fjölskylda hans hafi verið íslensku samfélagi til vandræða. Heldur er vísað til samninga og samkomulaga til að færa rök fyrir ákvörðun yfirvalda.
Íslenskir stjórnmálamenn geta staðið fyrir björgun erlendra skákmanna (Bobby Fisher) og veitt þeim íslenskan ríkisborgararétt og vegabréf án fyrirhafnar. Var það kannski réttmæt undantekning að mati forstjóra Útlendingastofnunar eða hæstvirtum dómsmálaráðherra? Ef mál Bobby Fishers var tekið fyrir sé ég enga ástæðu til að vísa máli Paul Ramses frá. Ef eiginkona Ramses fékk dvalarleyfi í Svíþjóð til ársins 2012, set ég spurningamerki við synjun íslenskra yfirvalda á umsókn hennar um dvalarleyfi hér á landi. Hvað er það sem Svíar sætta sig við en ekki Íslendingar?
Þar sem þetta mál hefur ekki verið tekið fyrir legg ég til að við sendum Ramses á skáknámskeið og höldum hér mót honum til heiðurs. Látum alla skákmeistara Íslands tapa fyrir nýja skákmeistaranum Hr. Ramses. Með því gæti kannski fylgt íslenskt vegabréf. Stundum er allt hægt á Íslandi... en þá augljóslega bara stundum og þegar það hentar ákveðnum aðilum.
Nú er bara að vona að forsætisráðherra Geir H. Haarde geri athugun á þessari málsmeðferð. Enda full ástæða til.
Deiglan.com, 07. júlí 2008.
Höfnin flutt, flugvöllurinn kyrr!
21.6.2008 | 11:20
Öflug umræða um skipulagsmál borgarinnar er nauðsynlegri nú en nokkru sinni fyrr. Langvarandi forystuleysi borgaryfirvalda í þessum málum hefur skemmt verulega fyrir eðlilegri þróun borgarinnar. Ef fram fer sem horfir mun Landspítali rísa í kjarna borgarinnar, flugvöllurinn skal fara eða vera kyrrsettur, gömul og niðurnídd hús í miðbæ borgarinnar skulu rifin eða varðveitt og ný íbúðarhverfi vaxa í útjaðri borgarinnar. Ég tel umræðuna um Vatnsmýrina, 102 Reykjavík, leggja skugga á umræðu annarra skipulagsþátta. Til eru önnur svæði þar sem íbúabyggð kemur til greina í kjarna höfuðborgarinnar.
Nýjar hugmyndir
Borgarfulltrúar allra flokka tala fagurt um þróun miðbæjarins og heildarmynd borgarinnar. Hins vegar virðast flestir þeirra vera algjörlega fastir við Vatnsmýrina þegar kemur að þróun nýrra íbúahverfa í miðbænum. Nauðsynlegt er að koma á framfæri hugmyndum sem geta stuðlað að íbúafjölgun í kjarna borgarinnar á næstu áratugum eins og tilteknir stjórnmálamenn gera til dæmis með Vatnsmýrartillögunni. Hins vegar eru til aðrar leiðir sem ná fram sömu markmiðum þar sem flutningur flugvallarins er ónauðsynlegur. Þær lausnir geta verið framkvæmanlegar á mun skemmri tíma heldur en þróun byggðar í Vatnsmýri.
Flugvöllurinn kyrr
Óbreytt staðsetning flugvallarins er skynsamleg að mínu mati og þarf alls ekki að útiloka uppbyggingu í nágrenni hans. Nýlegar skoðanakannanir benda til þess að stór hluti Reykvíkinga vilji halda flugvellinum. Peer Teglgaard Jeppesen, einn þekktasti arkitekt Dana og hönnunarstjóri arkitektastofunnar HLT í Danmörku, vakti nýlega athygli á kostum þess að hafa flugvöllinn áfram í Reykjavík. Peer sagði meðal annars að ekki væri gáfulegt að láta fólk aka langar leiðir að óþörfu til að sækja innanlandsflug, eins og til dæmis til Keflavíkur, þar sem slíkt leiðir af sér óþarfa orkunotkun og þar af leiðandi mengun. Varðandi uppbyggingu í Vatnsmýrinni sagði hann að flugvélar muni þróast og þurfa styttri flugbrautir og því gæti flugvallarsvæðið hugsanlega minnkað í framtíðinni.
Höfnin flutt
Flestir eru sammála um að nauðsynlegt er að þétta byggð í kjarna Reykjavíkur. Í því samhengi er rétt að taka hafnarsvæðin til umræðu. Þetta eru með verðmætustu svæðum borgarinnar og geta vel orðið með þeim fallegri. Það fer ekki framhjá neinum sem heimsækir hafnarsvæðin í miðborginni að nauðsynlegt er að koma svæðinu í lag með einhverjum hætti. Að mínu mati væri skynsamlegast að fylla upp í 80-90% af núverandi hafnarsvæði við miðbæinn, sem er um það bil 27 hektarar, og þróa þar íbúabyggð og mynda þannig bryggjuupplifun ásamt því að leggja áherslu á göngusvæði. Með þessu myndi íbúum miðbæjarins fjölga ört þar sem nú þegar er byrjað að byggja á svæðinu og afar vinsælt að búa í slíkum hafnarhverfum.
Einnig ætti að athuga önnur hafnarsvæði í kjarna borgarinnar. Hægt væri á næstu áratugum að flytja Eimskip, Samskip og aðra úr Sundahöfn og breyta öllu því svæði í íbúahverfi. Til samanburðar má geta þess að hér er um að ræða landsvæði sem er töluvert stærra en Reykjavíkurflugvöllur. En umfjöllun um Sundahafnarsvæðin ein og sér er efni í aðra grein.
Gamla höfnin og Örfirisey
Gamla höfnin á að vera hluti af nýju hafnarhverfi. Hins vegar á Reykjavík að vera framsækin borg á sem flestum sviðum atvinnulífs og ætti að gera ráð fyrir nýju hafnarsvæði yst á Örfirisey. Skilgreina þarf starfsemina sem á þar heima og veita atvinnugreininni góða og nútímalega aðstöðu. Ánægjulegt ef hægt væri að efla og halda hafnarsvæðum borgarinnar virkari. Ekki á að fjarlæga höfnina, heldur flytja hana út fyrir núverandi hafnargarða. Rétt er af Reykjavíkurborg að veita sérstaklega smábátum og minni fiskiskipum aðstöðu.
Þar sem hér er rætt um Örfirisey er varla hægt að sleppa því að minnast á olíutankana. Krefjumst þess að þeir [olíutankarnir] verði fluttir annað og helst grafnir niður í jörðu utan höfuðborgarsvæðisins. Sjónmengunin hverfur, lóðir verða lausar fyrir aðra starfsemi og uppbyggingu ásamt því að keyrsla flutningabíla til og frá svæðinu í gegnum miðbæinn hverfur. Sem væri í sjálfu sér ákveðinn sigur í umhverfis- og öryggismálum.
Hringbraut
Í tengslum við þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram hér að ofan er rétt að staldra við samgöngumálin. Þar sem hafnirnar yrðu fluttar lengra út væri hægt að leggja áframhaldandi Sæbraut í stokk framhjá tónlistar- og ráðstefnuhúsinu, yfir í Örfirisey og ná þaðan tenginu við Hringbraut. Þar með væri umferðinni ekki beint inn í miðborgina eins og til dæmis í gegnum Geirsgötu og Mýrargötu. Það er rangt að draga helstu umferðaræðar inn í íbúabyggð að óþörfu. Höldum áfram með Sæbraut eins og hún var lögð á sínum tíma, meðfram sjónum. Búum til alvöru Hringbraut í kringum borgina.
Skipulagsmál í úlfakreppu
Látum ekki afstöðuleysi kjörinna borgarfulltrúa og deilur þeirra á milli koma í veg fyrir áframhaldandi þróun Reykjavíkur. Það er kominn tími til að leysa skipulagsmál borgarinnar úr þeirri úlfakreppu sem þau eru búin að vera í. Byrjum að taka ákvarðanir sem skipta máli.
24stundir, 21. júní 2008
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Áhrifamáttur bloggsins
2.6.2008 | 22:47
Blogg veitir nokkrum mönnum tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós nær daglega. Þar má nefna til dæmis Björn Bjarnason og Egil Helgason, sem taka virkan þátt í umræðum þjóðfélagsins. En getur verið að bloggið sé eins og Hyde Park Corner í Lundúnum, afkimi fyrir sérvitringa?
Í BA ritgerð minni skrifaði ég um blogg og stjórnmál. Afar áhugavert var að skoða þetta tvennt í samhengi enda hefur bloggið verið lítið skoðað á Íslandi í fræðilegum tilgangi. Meðal þeirra spurninga sem ég reyni að svara í ritgerð minni er hvort bloggið getur verið áhrifamikill upplýsingamiðill þjóðfélagsumræðunnar. Umdeilt er hvort bloggari geti haft trúverðugleika, áhrif og völd í okkar samfélagi.
Áhrif bloggarans takmörkuð
Ljóst er að á Íslandi er aðgengi að tölvu og veraldarvefnum með því besta í heiminum. Flestir Íslendingar eiga þar af leiðandi auðvelt með að taka þátt í bloggumræðum sem lesendur eða höfundar eigin bloggs. Hins vegar er staðan allt önnur í flestum öðrum löndum og því er hópurinn sem tekur þátt í bloggumræðum afar takmarkaður. En hvert sem litið er sést ávallt kjarni vinsælla blogga sem ríkir innan bloggheimsins. Oftast eru það skoðanamyndandi einstaklingar í þjóðfélaginu sem virðast fá mesta athygli. Ef bloggarinn er ekki fjölmiðlamaður, háskólamenntaður, stjórnmálamaður, framkvæmdastjóri eða formaður einhvers félags má teljast afar ólíklegt að hefðbundnir fjölmiðlar á Íslandi muni veita skrifum þess bloggara einhverja athygli og þar af leiðandi er talið að skrifin hafi afar takmörkuð áhrif á þjóðfélagsumræðuna. Raunin er sú að meirihluti blogga hafa svo sem engin áhrif og draga fáa lesendur að sér. Samt sem áður eru blogg á Íslandi vel tengd við hefðbundna fjölmiðla og í ljós kom að það er mjög einfalt að margfalda heimsóknir bloggsins á örfáum dögum með því að blogga við fréttir á til dæmis mbl.is. Það má telja að íslenskt blogg eigi mikla möguleika á að geta orðið áhrifamikið ef það er notað með réttum hætti. En augljóst er að viðvera fjölmiðla- og stjórnmálamanna sé nauðsynleg til að bloggið geti talist trúverðugt.
Lýðræði á veraldarvefnum
Fjöldi stjórnmálamanna hafa stofnað eigið blogg og vefsíður. Það er athyglisvert að einn elsti þingmaðurinn, Björn Bjarnason, skuli vera meðal fyrstu bloggara Íslendinga. Nokkuð öflug umræða fór fram þegar Björn Bjarnason tók í notkun tölvupóst og stofnaði sitt blogg. Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður, varaði við tækninýjungum þáverandi menntamálaráðherra, sem var þá Björn Bjarnason. Það var ekki bloggið sem Guðrún var að bregðast við í þessu tilfelli heldur tölvupóstþjónusta ráðherrans. Ekki tíðkaðist á þeim tíma að nota tölvupóst sem samskiptatæki og um þetta ritaði Guðrún eftirfarandi í Morgunblaðinu þann 20. maí árið 1995:
Menntamálaráðherra á auðvitað heiður skilinn fyrir að bjóða þessa þjónustu þeim sem hana geta þegið. En öll starfsemi stofnana ríkisins verður að vera aðgengileg öllum landsmönnum. [...] Mín vegna má öll þjóðin eiga tölvur og mótöld. Það er víst ágæt skemmtun að komast inn í gagnslausu síðurnar á Internetinu, ef menn þarfnast þess ekki til annars. Þar má sjá hvað vatnsborðið er hátt í klósettkassa einhvers manns í Texas og hvað er eftir í kaffikönnunum í Háskólanum í Cambridge. Og svo er hægt að spjalla við nágrannana eða menntamálaráðherrann og enginn þarf nokkru sinni að að hitta neinn.
Það er mjög ólíklegt að einhver myndi vilja taka undir orð Guðrúnar nú. En með tækninýjungum getur almenningur haft samband beint við valdamenn þjóðarinnar og þar með rofið einangrunarstöðu þeirra. Því getur vel verið að bloggið þurfi að sætta sig við ákveðið magn af gagnrýni þangað til að það verður viðurkenndur hluti af þjóðfélagsumræðunni og öflugt samskiptatæki milli þegna landsins og ráðamanna þess. Lýðræðið og aðgengi að ráðamönnum á Íslandi telst að mörgu leyti til fyrirmyndar og hefur bloggið sem samskiptatæki kannski engin byltingarkennd áhrif hér. En bloggið veitir öðrum fjölmörg tækifæri til að tjá sig. Sem dæmi má nefna að konur í Íran nota blogg til að tjá sig nafnlaust um ástandið í landinu og bloggað er frá átakasvæðum í heiminum þar sem takmarkað tjáningafrelsi ríkir. Blogg er oftast ókeypis og einfalt að nota og fátt getur komið í veg fyrir að bloggskrif eigi sér stað. Eina sem þarf er aðgengi að tölvu og veraldarvefnum. Hins vegar hafa yfirvöld einstakra landa gengið svo langt, til aðgerða gegn bloggheiminum sem þeir eiga erfitt með að stjórna, að fjöldi bloggara hefur þurft að sitja fangelsisrefsingu vegna skrifa sinna á veraldarvefnum. Þau lönd sem stuðla að slíkum mannréttindabrotum eru oftast vel þekkt fyrir að draga úr tjáningafrelsi þegna sinna.
Trúverðugleiki er lykilatriði
Ein meginforsenda þess að bloggið geti áunnið sér trúverðugleika, og þar með völd, er að skoðanamyndandi einstaklingar taki þátt og notfæri sér blogg sem tjáningamiðil. Fyrir vesturheiminn virðist sú forsenda vera til staðar. Afleiðingar þess að skoðanamyndandi einstaklingar taki þátt í bloggumræðum er að hefðbundnir fjölmiðlar veiti þessum nýja miðli athygli. Ef þessir sömu einstaklingar hverfa af vettvangnum og snúa sér að öðru er gert ráð fyrir að hlutverk bloggsins í þjóðfélagsumræðunni verði afar takmarkað. Sumir ganga svo langt og segja það þá verða tilgangslaust. Endar þá bloggið kannski eins og Hyde Park Corner í Lundúnum, afkimi fyrir sérvitringa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Kyn og þróun í Miðausturlöndum og Norður-Afríku
23.5.2008 | 14:37
Mánudaginn 26. maí næstkomandi heldur Nadereh Chamlou, aðalráðgjafi um málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku hjá Alþjóðabankanum, fyrirlestur í stofu 101 í Lögbergi. Í fyrirlestrinum mun hún fjalla þróunarmál út frá kynjasjónarhorni með sérstaka áherslu á konur í opinbera geiranum, UNIFEM á Íslandi og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands standa fyrir fyrirlestrinum. Halla Gunnarsdóttir blaðamaður stýrir fundinum.
Nadereh Chamlou er fædd og uppalin í Íran en sótti sér menntun í Evrópu og Bandaríkjunum. Hún hefur starfað fyrir Alþjóðabankann í 27 ár og á þeim tíma hefur hún sinnt stjórnunarstöðum í ýmsum deildum bankans. Hún hefur meðal annars fengist við stjórn efnahagsmála, þróun fjármálamarkaða og rekstrar í einkageiranum, auðlindamálefni (olía og gas), fjarskipti, skipulagsmál, umhverfismál, bókhald og endurskoðun, stjórnarhætti fyrirtækja og þekkingarsamfélagið.
Nú starfar Chamlou sem aðalráðgjafi um málefni Mið-Austurlanda og Norður-Afríku þar sem hún leiðir stefnu Alþjóðabankans í málefnum kynja á þessum heimssvæðum ásamt því að veita bankanum ráðgjöf við innri stefnumótun. Chamlou er aðalhöfundur þriggja skýrsla sem bankinn hefur gefið út og nefnast Kyn og þróun: Konur í opinbera geiranum," Frumkvöðlaumhverfi gagnvart konum í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku" og Stjórnarhættir fyrirtækja: Rammareglur um innleiðingu".
Fyrirlesturinn mun fara fram á ensku og er opinn öllum. Aðgangur ókeypis.
Ekki lýðræði í konungdæmi?
18.5.2008 | 19:10
Alexander er sonur síðasta konungs Júgóslavíu og því krónprins verði landinu breytt í konungdæmi á ný en það er nú lýðræði.
Væri ekki lengur lýðræði ef því yrði breytt í konungdæmi? Er þetta í alvöru fyrsta frétt á mbl.is? Er þá ekki lýðræði í til dæmis Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Spáni, Bretlandi.... o.s.frv.?
Kannski lýðveldi sem blaðamaður Morgunblaðsins á við í þessu tilfelli. En svona til að velta þessu fyrir sér... hafa konungsfjölskyldur meira en menningarlegu hlutverki að gegna í lýðræðisríkjum 21. aldar? Ég hefði nú sjálfur svarað þeirri spurningu neitandi. Mæli með eftirfarandi pistli á Deiglunni í þessu samhengi: "Heimsins þægilegasta fangabúr"
Konunglegar móttökur í Serbíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bein kosning borgartjóra á 21. öld
6.5.2008 | 13:31
Ég skrifaði eftirfarandi á Deiglunni í febrúar:
Kjarni umræðunnar ætti vitaskuld að vera hin tíðu borgarstjóraskipti á undanförnum árum og slæmar afleiðingar þeirra fyrir hag borgarinnar. Í umræðunni hefur hins vegar lítið farið fyrir hugmyndum að lausnum. Að mínu mati ættu Reykvíkingar að eiga þess kost að kjósa sér leiðtoga þvert á flokkspólitík. Slíkt gæti tryggt meiri stöðugleika embættisins en það virðist nauðsynlegt á nýjum tímum stjórnmála höfuðborgarinnar. [...] Tíð borgarstjóraskipti vinstrimanna á umliðnum árum undirstrika þetta (Ingibjörg Þórólfur Steinunn Dagur). Það er kominn tími til að þessum útskiptingum linni og að embætti borgarstjóra öðlist aftur sinn fyrri virðuleika. Til þess að svo verði má þetta embætti ekki verða sífellt bitbein kosningabandalaga og hrossakaupa milli flokka.
Nú má bæta við Ólafi F. og hugsanlega Vilhjálmi seinna á kjörtímabilinu. Treystum kjósendum í Reykjavík fyrir vali á þeirra eigin borgarstjóra.
Aldarafmæli embættis borgarstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Kostnaður?
5.5.2008 | 13:24
Frakkar vakta loftrýmið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Al Gorgeir
29.3.2008 | 16:17
Þetta verður áhugaverður fundur. En Al Gore er umdeildur maður. Mæli með eftirfarandi pistli sem félagi minn Jan Hermann skrifaði um Al Gore þegar hann varð Nóbelsverðlaunahafi:
Al Gorgeir á Deiglan.com (18/10/07)
Boðað til fundar með Al Gore | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flytjum höfnina, látum flugvöllinn vera
29.3.2008 | 14:34
Er með pistil á Deiglunni í dag:
Um skipulagsmál Reykjavíkurborgar hef ég skrifað bæði hér á Deiglunni og á eigin bloggi. Það þarf svo sem ekki að taka það fram hversu nauðsynleg öflug umræða um skipulagsmál er þessa daga. Landspítali mun rísa í kjarna borgarinnar, flugvöllurinn skal fara eða vera kyrrsettur, gömul og niðurnýtt hús í miðbæ borgarinnar skulu rifin eða varðveitt, ný íbúðarhverfi vaxa í útjaðri borgarinnar og hugmyndir um lestarsamgöngur eru settar fram á ný. Þá hefur verið ákveðið að gera úttekt á léttlestarkerfi fyrir höfuðborgarsvæðið annars vegar og lest til Keflavíkurflugvallar hins vegar.
Lestardraumar
Deiglupenninn Samúel T. Pétursson skrifaði nú nýlega um þessa úttekt og er það ljóst að ekki er hagkvæmt að setja upp lestarkerfi innan höfuðborgarinnar eða milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Þetta eru og verða því áfram lestardraumar.
Hafa menn velt fyrir sér þeirri sjónmengun sem fylgir slíku kerfi? Þeir sem hafa heimsótt til dæmis Ósló átta sig fljótlega á þessu. Um þetta hef ég bloggað nýlega. Þar bendi ég á sjónmengun sem fylgir venjulegri lest annars vegar og léttlestarkerfi hins vegar. Mig mun því seint dreyma um lestir.
Flugvöllurinn
Hjartans mál margra stjórnmálamanna. En afstaða mín er einföld, ég vil hafa flugvöll í höfuðborginni. Ég hef áttað mig á því að íbúðauppbygging í Reykjavík þarf ekki einungis að eiga sér stað í Vatnsmýrinni. Að mínu mati er óbreytt staðsetning flugvallarins skynsamleg. Fjölmargar höfuðborgir gætu hugsað sér að hafa flugvöll í slíkri nálægð. Hvað varðar önnur þróunarsvæði í kjarna höfuðborgarinnar þá lýsi ég þeim hugmyndum aðeins hér á eftir.
Laugavegur
Ein frægasta gata þjóðarinnar. Sumir vilja sjá allan Laugaveginn sem göngugötu. Ég er ekki viss um að það muni leysa einhver vandamál frekar en að gera slíkt við Austurstræti og Pósthússtræti. Við munum ávallt lifa við fjölbreytt veðurfar og því ættum við að aðlaga gatnakerfi miðbæjarins eftir því. Nauðsynlegt er að setja upp kerfi til að loka fyrir bílaumferð á einstökum götum þegar veður gefur tilefni til.
Hvað varðar 19. aldar svip Laugavegs þá er ég svo sem ekki mótfallinn því að vernda ímynd gamla Laugavegarins. Hins vegar er ég ósammála því að Reykjavíkurborg verji skattpeningum borgaranna til að kaupa húsin og gera þau upp. Nauðsynlegt er að setja reglur um ytra útlit nýrra bygginga á þessu svæði. Í því fælist að gerður væru kröfur um ákveðinn stíl en að allt annað mætti vera eftir þörfum eiganda. Hugsanlega væri æskilegt að setja reglur um hæð bygginga. Með þessu væri ytra útlit varðveitt án þess að haldið væri upp á spýtnadrasl sem gerir ekkert gagn hvorki menningarlegt né sögulegt.
Landspítali Háskólasjúkrahús
Mitt hjartans mál. En ég kom allt of seint inn í umræðuna. Talaði við vegginn þegar ég lýsti óánægju minni við þá ákvörðun að byggja nýja Landspítalann í miðborg Reykjavíkur. Niðurstaða þessa máls er dapurleg þótt ég telji heilbrigðismál þjóðarinnar í góðum höndum ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Undir hans forystu munum við sjá miklar framfarir í íslensku heilbrigðiskerfi á næstu árum og hlakka ég sérstaklega til að sjá hvernig aukin aðkoma einkaaðila mun reynast kerfinu.
Hafnarsvæði einkavæðing væntanleg?
Hér er um að ræða nokkuð sem ég hef verið að velta fyrir mér undanfarna daga. Ég er sammála því að ágætt væri að þétta byggð í kjarna Reykjavíkurborgar. En hvar ætti að byggja? Upprunalega fannst mér ágæt hugmynd að byrja á því að byggja þar sem nýr Landspítali verður við Hringbraut. En nú er sá draumur úr sögunni og hef ég því nokkrar aðrar hugmyndir sem gera byggð í Vatnsmýrinni hugsanlega óþarfa:
1) Það ætti að fylla upp í bryggjusvæðið við hlið nýja Tónlistarhússins og alla leið út í Örfisey og byggja íbúðir og þjónustufyrirtæki meðfram strandlínunni. Minnsta mál er svo að koma fyrir aðstöðu fyrir smábáta utan núverandi hafnargarða. Íbúum miðbæjarins myndi fjölga þar sem nú þegar er byrjað að byggja við Granda. Þannig yrði aukið framboð af svokölluðum bryggjuhverfum í Reykjavík.
2) Hafnarsvæðið sem meðal annars Samskip og Eimskip hafa til afnota er afar óheppilega staðsett og ætti að flytja annað, svo sem nær Kjalarnesi/Hvalfirði. Að mínu mati væri heppilegra að taka þetta svæði undir íbúabyggð. Þarna væri hægt að koma fyrir miklu magni af nýju húsnæði ásamt því að gera mætti brú yfir í Viðey og jafnvel byggja einnig þar. Og svo áfram brú frá Viðey yfir í Geldingarnes. Algjör synd að nýta ekki þetta landsvæði.
3) Faxaflóahafnir, fyrirtækið sem rekur meðal annars hafnarsvæðin í Reykjavík og er að stórum hluta í eigu Reykjavíkurborgar, ætti að halda sig við minniháttar hafnarstarfsemi. Erlendis er það víða þekkt að bryggjur eru í eigu einkaaðila. Ég tel að Reykjavíkurborg eigi ekki að vera í slíkum rekstri og réttast væri að Eimskip og Samskip rækju sín hafnarsvæði sjálf. Í þessu sambandi má benda á nýlega ábendingu Icelandair um óviðeigandi gjaldtöku opinberra aðila í rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Það er því spurning hvort Eimskip og Samskip vilja fjárfesta í eigin hafnarsvæði í stað þess að greiða gjöld til opinbers fyrirtækis? Slíkt gæti tvímælalaust leitt til hagræðingar í rekstri.
Þótt þessi tilflutningur á hafnarstarfsemi kostar auðvitað sitt mundu tekjur af lóðaúthlutunum á núverandi hafnarsvæði vega upp á móti. Menn skyldu hafa í huga að flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni og tilheyrandi uppbygging lestarsamgangna mundi að öllum líkindum hirða verulegan hluta hagnaðar af sölu lóða í Vatnsmýrinni.
Kosturinn við þessar hugmyndir er að hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd á mun skemmri tíma heldur en að flytja Reykjavíkurflugvöll burt. Það er kominn tími til að leysa skipulagsmál borgarinnar úr þeirri úlfakreppu sem þau eru búin að vera í um allt of langan tíma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Lestardraumar II
27.3.2008 | 15:16
Samúel T. Pétursson birti áhugaverðan pistil á Deiglunni í dag. Þar segir hann meðal annars:
Það er ekki ósennilegt að í hugum margra séu lestarsamgöngur eitt af þeim göfugu endamarkmiðum sem hver borg þarf að marka sér til að komast á kortið sem borg meðal borga. Ekki síst nú á tímum umhverfisvitundar og hundrað dollara olíutunnu. Það er sennilega með þessa hugsun í farteskinu sem nokkrir alþingismenn hafa lagt fram þingsályktun þess efnis að skoðuð verði hagkvæmni þess að byggja lestarspor milli Reykjavíkur og Keflavíkurvallar annars vegar, og byggja upp léttlestarkerfi á höfuðborgarsvæðinu hins vegar. [...] En ný úttekt á lestarsamgöngum sem slíkum er óþörf. Gerð var sambærileg úttekt og þingsályktunin leggur til fyrir réttum fjórum árum síðan. Úttektin var unnin af verkfræðistofunni VSÓ að beiðni OR undir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar, þáverandi stjórnarformanns. Niðurstaða úttektarinnar kom fáum á óvart. Ekki síst sérfræðiaðilum. Kostnaður, bæði stofn- og rekstrarkostnaður, var óheyrilega hár, og ávinningurinn mjög takmarkaður. Stofnkostnaður léttlestakerfis var t.a.m. áætlaður milli 20 og 30 milljarðar (líklega 30-40 á núverandi verðlagi), myndi einungis þjóna um þriðjungi af íbúum Reykjavíkur og tekjur af fargjöldum tæplega ná inn fyrir rekstargjöldum.
Nauðsynlegt er að benda á hversu fáránlegt það væri að fara í þessar framkvæmdir. Eins og vitað er þá eru lestarsamgöngur niðurgreiddar, til dæmis í Skandinavíu (þótt mig gruni að flest allar lestar séu niðurgreiddar til að halda verði niðri í samkeppni við einkabílinn). Höfuðborgarsvæði þar eru mun fjölmennari heldur en höfuðborgarsvæðið hér á Íslandi og því er alveg augljóst að ef við færum að koma upp einhverju lestarkerfi hér þá yrði slíkt að vera niðurgreitt til að einhver sæi sér hag í því að nota samgönguformið...
Og hversu oft kvarta ekki Íslendingar yfir sjónmengun? Vita menn ekki hversu mikil sjónmengun fylgir því að vera með lest? Hér eru tvö dæmi frá Svíþjóð (og hér er hægt að skoða "trikken" í Osló):
Borgarráð skoðar hagkvæmni lesta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nauðsynlegar upplýsingar II
27.3.2008 | 14:41
Ættfræðingar hafa lagst yfir ættartölur frambjóðendanna sem sækjast eftir að verða forseti Bandaríkjanna.
Ætli Obama verði boðið á næsta ættarmót með Bush? Og Hillary Clinton í afmæli Angelinu Jolie? Svo birti íslenskur bloggari, Ómar Friðleifsson, eftirfarandi mynd í gær undir fyrsögninni Og svona líta þau út skyldmennin soðin saman (þessi mynd er nú bara algjör snilld):
En það er alveg ótrúlegt hversu mikla athygli þessi frétt fær. Birt á forsíðu mbl.is í gær og aftur í dag með Reuters myndbandi.
Frægt frændfólk frambjóðenda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
GVT: 2003-2008
26.3.2008 | 10:35
Stjórnmál og samfélag | Breytt 27.3.2008 kl. 22:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Ríkisstarfsmenn eiga ekki að njóta minni verndar
26.3.2008 | 10:28
Ég ætla sjálfur að fá að stýra því hvenær persónulegar upplýsingar um mig eru birtar
Þetta eru persónuupplýsingar og varða ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífsins. Enginn á að þola að slíkar upplýsingar ferðist um þjóðfélagið án samþykkis viðkomandi. Ríkisstarfsmenn eiga ekki að njóta minni verndar en almenningur í landinu. Og sá sem krefst upplýsinganna þarf málefnalegar forsendur til þess aðrar en að svala forvitni sinni