Þverpólitísk samstaða á Austurvelli

Þetta var góður fundur, en alls engin endastöð. Heldur bara byrjunin á baráttunni fyrir hag þjóðarinnar. Að samþykkja Icesave hefur sínar afleiðingar en að sjálfsögðu verða einnig átök ef/þegar núverandi samkomulagi við Breta og Hollendinga verður hafnað. Þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir munu neyðast til þess að koma aftur að samningaborðinu.

Samstöðufundur Íslendinga á Austurvelli í dag var langt frá því að líkjast átökunum s.l. vetur. Í kvöld var engin krafa lögð fram um að ríkisstjórnin segi af sér... af hverju ekki? Vegna þess að nú þurfum við að ljúka þessu Icesave máli með farsælum hætti og leggja til hliðar um stund hina innlendu flokkspólitísku baráttu. Við þurfum niðurstöðu sem íslensk þjóð getur bæði sætt sig við og staðið undir.


mbl.is 3000 á samstöðufundi InDefence
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum saman – ríkisstjórnin með þjóðinni

Nú verður ríkisstjórn Íslands að gerast raunsæ og fara að horfast í augu við hversu ótækir fyrirliggjandi Icesave samningar eru. Ríkisstjórnin verður að hlusta á rökvísar ábendingar fjölmargra sérfræðinga og hlíta vilja stórs meirihluta þjóðarinnar sem vill hafna þessum samningum. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll verður að snúa sér að því að ná sanngjarnari niðurstöðu. Meðferð málsins hefur verið ein samfelld hrakfallasaga. Samt reynir fjármálaráðherra endalaust og af öllum sínum sannfæringarkrafti að draga fram einhverja kosti samninganna. Það eru hins vegar vankantar og aftur vankantar sem koma í ljós. Því verður æ skiljanlegra að í upphafi skuli hafa verið ætlun fjármálaráðherra að fá ríkisábyrgð á samningunum án þess að þingmönnum yrði veittur aðgangur að samningsskjölunum – svo fráleit vanvirðing við Alþingi sem slík málsmeðferð er.

Ríkisstjórninni virðist ennþá vera meira í mun að verja Icesave samningana en rétta hlut þjóðarinnar gagnvart viðsemjendunum. Í hvert sinn sem fram koma lagarök sem styðja málstað Íslendinga eru fengnir innanbúðarmenn stjórnarinnar til að reyna að andæfa þeim, rétt eins og þeir væru í vinnu hjá Bretum og Hollendingum en ekki valdir til að gæta hagsmuna Íslendinga. Ef möguleikar eru á tvenns konar túlkun velja forystumenn ríkisstjórnarinnar ævinlega þann kostinn sem kemur Bretum og Hollendingum betur. Þeir þráast við að viðurkenna það sem þorri alþingismanna hefur fyrir löngu áttað sig á að samningarnir eru ótækir með öllu fyrir íslenska þjóð.

Nú þegar tilraunirnar til rökstuðnings hafa mistekist hjá ríkisstjórnarforystunni virðist eiga að hafa í hótunum við þingmenn stjórnarliðsins sem ekki geta samvisku sinnar vegna stutt samningana og vilja að betur verði gert.  Það væri lýðræði og þingræði okkar mikið áfall ef haldið verður lengra á þeirri braut.  Hótanir um að þeir sem ekki vilja styðja samningana valdi stjórnarslitum eru út í hött.  Stjórnin hefði aldrei meiri ástæðu til að sitja en ef hún einsetti sér að standa sig betur en áður við að tryggja hag þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu.

Ýmis dæmi eru líka um það úr milliríkjasamskiptum að samningar hafi ekki náð staðfestingu þjóðþinga. Reyndum samningamönnum Breta og Hollendinga og ríkisstjórnum þeirra, sem þekkja til hlítar alþjóðlegar hefðir og venjur, var að sjálfsögðu fullljóst að ákvörðun um ríkisábyrgð, og þar með gildi samninganna, væri einungis á valdi Alþingis. Nú þegar mistekist hefur gjörsamlega að sannfæra Alþingi um ágæti þessara samninga á framkvæmdavaldið að sjá sóma sinn í því að gera viðsemjendunum grein fyrir þeirri staðreynd.  Hún skuldar þjóð sinni að leita nýrrar niðurstöðu -- sanngjarnari samninga.

Bæði Bretum og Hollendingum er auðvitað fyrir löngu orðið fyllilega ljóst að málið stefnir í þann farveg.  Meint tregða þeirra til að setjast að samningaborði á ný sýnir vel hve hagstæðum samningum þeir telja sig hafa náð. Höfnun Alþings á þessum samningum er forsenda þess að sest verði að samningaborði aftur. Bretar og Hollendingar eiga ekki völ á öðru en taka boði um nýjan samning. 

Að sjálfsögðu verður höfnun Alþingis á Icesave samningunum áskorun fyrir íslenska þjóð. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar stæðu andspænis ofurvaldi fyrrverandi nýlenduþjóða. Í landhelgisdeilum fyrr á árum hafði þessi fámenna þjóð þó fullnaðarsigur. Ein meginforsenda þeirra farsælu málalykta var að þá stóð þjóðin þétt saman. Það er skylda okkar Íslendinga nú, hvar í flokki sem við erum, að standa saman gegn þessum ótæku Icesavesamningum. Með samstöðu munum við snúa glímu sem nú stefnir í uppgjöf í sókn. Ég skora á íslensk stjórnvöld að sýna samstöðu með þjóð sinni.

Morgunblaðið 13. ágúst 2009


Bloggfríi fer brátt að ljúka

Ég hef heldur betur slakað á í blogg- og greinaskrifum undanfarið. Ástæðan er einfaldlega sú að Ásta Hrund og ég tókum þá ákvörðun að gifta okkur og hefur sumarið svo sem farið í að vinna, skipuleggja brúðkaupið og svo loksins fórum við í smá ferð um landið. Brúðkaupsferð innanlands var mögnuð upplifun. Vá! hvað við búum á fallegri eyju. Kannski mun ég geta deilt með ykkur nokkrum stuttum vídjóklippum og myndum af þessari ferð okkar. En læt hér fylgja eina mynd af okkur hjónunum á brúðkaupsdeginum.

Vonandi mun ég finna tíma í bloggskrif á ný fljótlega. Ástandið hér á landi kallar á öfluga þjóðfélagsumræðu og mun ég ekki láta mig vanta þar á bæ.

Icesave – gamla Steingrím J. í baráttuna aftur

Mér blöskrar sú staða sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum. Að undanförnu hefur framkvæmdavaldið ætlast til þess að háttvirtir þingmenn taki ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar án þess að fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Mér ofbýður aðför ríkisstjórnarinnar að hinu lýðræðislega kjörna Alþingi.

Allar upplýsingar á borðinu?
Nýlega hélt ríkisstjórnin því fram að „öll gögn [væru] komin á borðið“ í Icesave málinu og þingmenn því með allar upplýsingar í höndum. Stuttu eftir það birti Morgunblaðið álit bresku lögfræðistofunnar Michon de Reyja þar sem meðal annars kemur fram að ábyrgð Íslendinga í Icesave málinu er síður en svo ótvíræð. Þetta álit hafði þá hvorki verið birt né afhent þingmönnum.

Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að þetta skjal væri ómerkilegt, en svo bað hæstvirtur utanríkisráðherra Alþingi forláts fyrir þau mistök að hafa ekki veitt þingmönnum aðgang að skýrslunni. Þessi afsökunarbeiðni er kærkomin en samt eflist við uppákomuna tortryggni gagnvart íslenskum yfirvöldum. Þessu vinnulagi verður að breyta, því hvað annað kann að hafa „gleymst“ að birta eða afhenda þingmönnum?

Icesave – samning en ekki þennan
Þótt Alþingi og ríkisstjórn beri fyrst og fremst að gæta hags íslensku þjóðarinnar er líka vert að hafa í huga að það er engan veginn í hag Breta eða Hollendinga að ná samningi sem íslenska þjóðin getur ekki staðið við. Í núverandi Icesave-samning skortir varnagla.  Öll áhætta af því t.d. hvernig eignir Landsbankans nýtast er á okkur. Og ennþá skortir alla trygga yfirsýn yfir getu okkar til að efna slíkan samning. Mér finnst makalaust að kjörnir þjóðfulltrúar treysti sér til að taka á þjóðina skuldir sem bæði hvíla á ótraustum lagagrunni og að auki er mikil óvissa um að við getum risið undir. Það er að segja staðið undir þannig að þjóðin nái að þrífast þolanlega og eðlilega.

Ekkert í  viðurkenndum venjum alþjóðasamskipta er því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geti tekið málið upp á ný við Breta og Hollendinga.  Vel er hægt að vera þeirrar skoðunar að reyna beri samningaleið til þrautar, þótt núverandi samningur þyki ótækur. Það má vera að Steingrímur viti ekki hvað hann eigi að segja við bresku og hollensku kollega sína þegar þeir óska eftir svörum við höfnun Alþingis á Icesave samkomulaginu. En ég legg þá til að ráðherrann segi einfaldlega: „Móti okkar von og vilja hefur komið í ljós að Alþingi Íslendinga telur samninginn ekki sanngjarnan. Því  þurfum við - ef reyna á samningaleiðina frekar - að setjast niður á ný og breyta þeim atriðum sem standa í vegi fyrir samþykkt þingsins.“  Flóknara þarf þetta ekki að vera.

Í stað þess að undirbúa slík svör og fara nú að tala máli Íslendinga, eftir að hafa séð andstöðu þingsins og almennings, reynir Steingrímur með sinni miklu ræðusnilli en jafnframt ófyrirleitni og falsrökum (þ.m.t. óábyrgu tali um einangrun Íslands) að setja þumalskrúfur á þingmenn svo þeir samþykki samninginn gegn samvisku sinni og betri vitund. Framkvæmdavaldið má ekki hóta Alþingi eða gera þingmenn ábyrga fyrir ótækum samningi ríkistjórnarinnar við Breta og Hollendinga.

Í þágu Íslands aftur
Það er með ólíkindum hvernig Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, hefur á örfáum mánuðum tekist að fyrirgera miklu trausti sem hann hafði áunnið sér í stjórnarandstöðu.  Hvernig hann hefur getað horfið frá skoðunum sínum í jafnstórum málum og Icesave og ESB. Á tímum sem þessum þurfum við stjórnmálamenn sem sýna stefnufestu og þrautsegju - og missa ekki móðinn í miðri baráttu. Ásmundur Daðason, nýr þingmaður VG, sagði á þingi á dögunum að honum væri ógnað með því að stjórnarslit yrðu ef hann færi eftir sannfæringu sinni og stæði að tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ásmundur hafði kjark til að opinbera þessa stöðu sína á fundi Alþingis og yfirgaf salinn í kjölfarið. Sagðist hann ekki ætla að taka þátt í umræðunni, en kæmi engu að síður til að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. Það ber að þakka Ásmundi fyrir að þora að standa gegn slíku ofbeldi framkvæmdavaldsins gagnvart óbreyttum þingmönnum.

Ísland varð ekki sjálfstætt ríki né náði hvað eftir annað árangri í landhelgismálinu án baráttu.  Þá var ekki klifað á því að „betra [væri] að semja en að deila“.  Ég heimta gamla Steingrím J. til baka á þing. Þann Steingrím sem berst fyrir eigin stefnu í ESB og Icesave málum, eins og hann lýsti henni fyrir kosningar – en þrælar ekki fyrir vagni Samfylkingarinnar og talar máli Breta og Hollendinga meira en okkar landa sinna. Ég hrósa Framsóknarmönnum og þingmanni VG, Ásmundi Daðasyni, fyrir aðdáunarverða frammistöðu á þingi og ég hvet Sjálfstæðismenn til að halda áfram að leggja eigin tillögur fyrir þing fjölskyldum og fyrirtækjum til bjargar, því lausnirnar virðast ekki berast úr herbúðum vinstriflokkana.

Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 17. júlí 2009.


mbl.is Þrýst á Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðild að Evrópusambandinu – eða ekki

Ég get einungis talað fyrir mig sjálfan. En sem ungur Íslendingur verð ég að taka afstöðu til hvert ég óska að þjóð mín stefni. Eftir að hafa skoðað m.a. Evrópusambandið (ESB) í mínu þriggja ára námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í alþjóðasamskiptum við sama háskóla, hef ég tekið þá afstöðu að þjóðinni sé betur borgið utan sambandsins. Það getur aldrei verið betra að aðrir ráði meiru um málefni Íslendinga en þeir sjálfir. Að mínu mati sést líka glögglega í Icesave málinu hvernig stóru ríkin í sambandinu hegða sér ef upp kemur erfið staða fyrir ráðamenn þeirra. Þeir víla ekki fyrir sér að troða á þeim sem minni eru. Við megum ekki líta á þróun alþjóðasamstarfs Íslands út frá óskhyggju heldur raunhyggju. Líta á alþjóðasamfélagið eins og það er, en ekki eins og mörg okkar kysu að það væri, og móta afstöðu út frá því.

Sveigjanleiki og valkostir eru meðal styrkleika Íslands sem smáþjóðar í alþjóðasamfélaginu. Við þurfum að huga vandlega að öllu alþjóðasamstarfi og láta þar ekki troða á okkur, eins og Icesave málið sýnir glögglega að alltaf er hætta á. Það getur virst skína mikil fegurð úr laufskrýddum skógi tilskipana og reglugerða ESB sem samtvinnar allt og alla. En sú fegurð hvarf snögglega þegar upp kom galli á regluverki ESB um innlánstryggingar. Þá fór lítið fyrir samstöðunni og ESB var ekki lengi að koma ábyrgðinni yfir á Ísland í þágu kröftugra aðildarríkja sinna. Mér hefur verið sagt að slíka meðferð fengjum við ekki sem aðildarríki sambandsins, en slíkt getur enginn vitað með vissu. Og ég vil heldur ekki stuðla að því að Ísland verði hluti af ríkjasambandi sem hegðar sér með svo óábyrgum hætti gagnvart nágrönnum í þröngri stöðu.

Ég er síður en svo andstæðingur Evrópusamstarfs. Hvenær kom sá dagur að samstarf við önnur ríki álfunnar þýddi eingöngu aðild að ESB? Hér á landi þarf að standa vörð um öflugt samstarf við Evrópu en einnig aðrar heimsálfur sem Íslendingum hugnast að eiga samstarf við.


mbl.is Samþykkt að senda inn umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnlausi kröfuhafinn

Í allri umræðunni um efnahagsmál á Íslandi eru ákveðin orð eða heiti notuð reglulega. Sem dæmi má nefna: „erlendir fjárfestar“, „kröfuhafar bankanna“ og „eigendur jöklabréfa“. Hvernig stendur eiginlega á þessu endalausa nafnleysi?

Upplýsingar um eignarhald
Það eru ekki vélmenni á bak við orðin „fjárfestir“, „eigandi“ eða „kröfuhafi“. Heldur einstaklingar eða fyrirtæki/sjóðir í eigu ákveðinna einstaklinga. Stundum finnst mér upplýsingar um eignarhald vera flokkaðar sem „top secret“ eða þær séu hreinlega ófáanlegar. Hvernig stendur á því að svona erfitt reynist að birta lista yfir t.d. kröfuhafa íslensku bankanna eða eigendur jöklabréfa? Einhver hlýtur að vera með yfirlit yfir eigendur þessara „þjóðhagslega mikilvægu“ eininga á fjármálamarkaðnum hérlendis sem njóta m.a. ríkisábyrgðar. Eða sér Fjármálaeftirlitið (FME) um eftirlit með kerfi sem það veit afskaplega lítið um?

Hver er ábyrgð erlendra fjárfesta?
Ég heyri oft stjórnmálamenn og aðra tala um að vernda erlenda fjárfesta/kröfuhafa svo þeir muni þora að fjárfesta hér á ný í framtíðinni. Voru það ekki einmitt erlendir fjárfestar sem tóku ákvörðun um að lána íslenskum bönkum í einkaeigu yfir 15 þúsund milljarða? Þarf ekki að gera athugasemd við það að einhver tók ákvörðum um að lána íslenskum bönkum slíkar fjárhæðir? Ég vil gjarnan fá að aðgreina hvaða erlendu fjárfesta ég tek þátt í að vernda sem skattgreiðandi. Það er ljóst að þeir sem tóku áhættuna á því að fjárfesta svona gríðarlega hér á landi verða einnig að axla ábyrgð.

Íslenska ríkið og þar með íslenskir skattgreiðendur sáu fyrir tryggingu allra innistæðna í íslenskum bönkum. Fjárfestar, eða kröfuhafar bankanna, treystu á ríkisábyrgðina og tryggðu ekki krónu sjálfir. Ég á rétt á að vita hvaða kröfuhafar hafa notið íslensku ríkisábyrgðarinnar. Að mínu mati verður hið víðfræga „gegnsæi“ að vera í lykilhlutverki þegar kemur að endurreisn íslenska efnahagslífsins sem og þess alþjóðlega. Almenningi eða að minnsta kosti yfirvöldum ber að eiga allar upplýsingar um eignarhald svo hægt sé að veita kerfinu almennilegt aðhald og öflugt eftirlit.

Frelsi.is, 26. júní 2009.


Quality, not quantity!

Svipuð samþjöppun á sér stað t.d. á blogginu líka, það eru gæðin á þessum 10% virkustu / vinsælustu sem skiptir máli.

- Á Íslandi fara flestir inn á Mbl.is og Visir.is til að lesa fréttir á netinu. Færri fara á Eyjan.is, Pressan.is o.s.frv.

- Hversu margir einstaklingar skrifa til dæmis efni í dagblöðin á Íslandi samanborið við fjölda lesenda dagblaðanna(=notendur)? Kæmi mér ekki á óvart ef það er undir 10%.


mbl.is Er Twitter-bólan sprungin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myndband: Mótmæli á Austurvelli

Sjá hér: http://qik.com/video/1836493


mbl.is Skriflegt samkomulag í október
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skatttekjur Breta í Icesave-málinu

Hvernig var þetta aftur með skattlagningu á Icesave? Ekki voru Bretar að kvarta þegar þeir fengu tekjur vegna Icesave. Bretar innheimtu skattana tengda Icesave reikningunum... bera þeir samt enga ábyrgð? Eins og Icesave samningurinn er núna þá er Ísland að taka ansi mikið á sig með okurvöxtum.

Ættu Bretar að minnsta kosti ekki að draga frá þær tekjur sem breska ríkið innheimti í tengslum við Icesave? Auðvitað allt á 5,5% vöxtum.


mbl.is Margir skrá sig gegn Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stöndum saman!

Alveg rétt hjá Vilhjálmi Egils. Nú þurfum við að standa saman, standa saman GEGN þessum samningi. Mótmælum samningsskilyrðum, neitum að borga og sendum jafnvel sendiherra Breta heim. Ég hef fengið nóg!
mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigur Breta í Icesave-málinu

Var það ekki Steingrímur Joð sem sagði að niðurstaðan í Icesave málinu yrði ásættanleg? Af hverju erum við Íslendingar ekki að fagna eins og Bretar?
mbl.is Bretar fagna Icesave-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bækur á undan skýrslum

Þær eru farnar að vera margar bækurnar um bankahrunið. En ekkert sést í alvöru aðgerðir stjórnvalda. Ríkisstjórnin ætti kannski að ráða til sín nokkra rithöfunda, þá kæmist kannski eitthvað í verk.

Það gengur svo hægt hjá þessari ríkisstjórn að það mætti skýra hana Hina Norrænu Sniglastjórn.


mbl.is Davíð lét AGS heyra það
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reiðhjólamenn með slökkvitæki

 Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins barðist nú undir kvöld í um einn og hálfan klukkutíma við gróðureld, sem kviknaði í Vífilsstaðahlíð í Heiðmörk. Hópur manna, sem var í svonefndu fjallabruni á reiðhjólum (...) hefðu reynt að hella vatni og gosi á eldinn og sprautað úr slökkvitæki, sem einn hafði meðferðis en ekkert gekk.

Þvílík vitleysa að skilja kolagrill eftir í Heiðmörk á þessum árstíma. En sú tilviljun að menn í fjallabruni hafi haft slökkvitæki meðferðis. Spurning hvort maður taki eitt stykki slökkvitæki með í næstu hjólreiðaferð í Fossvoginum/Öskjuhlíðinni á leið í vinnuna. Aldrei að vita hvenær slíkt tæki gæti komið að gagni.http://blogs.reuters.com/photo/files/2007/11/mario-bike.jpg

En af hverju hafa menn í fjallabruni eiginlega slökkvitæki meðferðis? :-/ Myndin tengist þessu máli ekki neitt... fannst hún bara henta vel með færslunni. :P


mbl.is Börðust við eld í Heiðmörk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þróun miðborgar

Nú er verið að ræða hvort það eigi að halda áfram með byggingu tónlistarhússins eða ekki. Alþingismönnum ber auðvitað að taka þessa umræðu og fara vel yfir öll útgjöld ríkisins.

Hins vegar þurfa alþingismenn og aðrir einnig að huga að heildinni. Ef tónlistarhúsið verður látið standa eins og það er í dag mun allt bryggjusvæðið í Reykjavík líða fyrir enn ömurlegra ástand svæðisins... sem og miðbærinn. Það verður að sjálfsögðu að endurskoða áætlanir, en reynum nú samt að hugsa þetta mál til lengri tíma. Reynum að finna ásættanlega leið til að klára verkefnið. Til dæmis lengja byggingartíma, minnka byggingarmagn, byggja í áföngum, útvíkka notkunarsvið hússins o.s.frv.


mbl.is Deilt um tónlistarhús á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hello Europe!

Eurovision í kvöld og við ætlum auðvitað að ná íslenska markmiðinu: 2. sæti! Sem þýðir frábær árangur án þess að þurfa að halda fimm milljarða keppni hér á landi á næsta ári. Hér eru 10 pælingar í tengslum við Eurovision.

Þeir sem þekkja mig vita að ég er enginn sérstakur Eurovision aðdáandi. Hins vegar hef ég alltaf haft gaman af því að horfa á þetta og skemmti mér ávallt þegar stigin eru lesin upp. Við elskum þær þjóðir sem gefa Íslandi stig en bölvumst út í þau ríki sem gefa okkur ekki neitt. Hér eru nokkrar Eurovision pælingar:

1. Kynnarnir í undankeppninni voru alveg einstaklega lélegir. Sérstaklega þegar þeir ýttu á „töfratakkann“ til að sækja niðurstöður úr símakosningu. Þeir voru einum of vandræðalegir þarna á sviðinu... ég hálf vorkenndi þeim. Ég væri til í að senda Hörð Torfason til að mótmæla þessu í Rússlandi.

2. Ég hef aldrei verið talsmaður þess að banna ákveðna tónlist... en come on, það eru ákveðin lög í þessari keppni og jafnvel í úrslitum sem mætti alveg banna.

3. Varðandi búlgarska lagið... þá er eins og einhver þar hafi „brainstormað“ um hvernig mætti smíða fullkomið Eurovision lag án þess að á einhverjum tímapunkti hafi verið sagt: „Nei, þetta gengur ekki“. Lagið endaði bara í fullkomnu slysi á alla vegu.

4. Þegar níu ára gamla frænka mín sá lélegt lag í undanúrslitakeppninni spurði hún: „Ef þetta lag sigraði í sínu heimalandi... hvernig voru eiginlega hin lögin sem töpuðu?“ Góð spurning. Hins vegar verður maður að viðurkenna það að Danir sendu sitt næst besta lag í aðalkeppnina. Hin íslenska Hera var áberandi betri. Spurning hvort Danir séu eitthvað fúlir út í Íslendinga?

5. Hver skrifaði eiginlega brandarana sem kynnarnir fóru með? Af þeim fimm milljörðum króna sem fóru í keppnina virðast ekki margar krónur hafa ratað í brandaraskrif.

6. Sviðið er alveg magnað í þessari keppni. Þessi stíll þekkist vel á Íslandi og gengur undir nafninu „2007“. Afar sjaldgæfur á Íslandi nú á dögum.

7. Ísland verður í 2. sæti á eftir Norðmönnum.

8. Er það bara ég en eru ekki Norðurlandaþjóðirnar að taka þessu full alvarlega nú í ár? Núna finnst mér eins og að allir hinir (aðallega Austur-Evrópa) séu að reyna toppa Silvíu-night.

9. Gaman að sjá öll Norðurlöndin í úrslitum - loksins getum við smalað stigum! Iceland 12 points! Þetta munum við heyra oft í kvöld!

10. Þessi keppni er frábær kynning fyrir Rússland og mig dauðlangar að heimsækja Moskvu!

Góða skemmtun í kvöld og áfram Jóhanna Guðrún!

Deiglan.com, 16. maí 2008.


Neyslustýring stjórnmálamanna

http://www.bristol.indymedia.org/attachments/feb2007/us_control_internet.jpgÉg hef enga trú á neyslustýringu stjórnmálamanna. Hins vegar er margt sem bendir til þess að íslenska skattkerfið verði því miður notað í þeim tilgangi að stýra neyslu almennings. Opinber gjöld á „óhollustu“ verða hækkuð með þeim rökum að verið sé að „vernda almenning“. Á vef Heilbrigðisráðuneytisins segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra:

Ástæða er til að grípa til varnaraðgerða til að bæta tannheilsu barna og unglinga, segir heilbrigðisráðherra. (...) Öll þessi mál verðum við að skoða í heild, neyslumynstur, neyslustýringuna og áhrifin á tannheilsu barnanna. Tannheilsa þeirra verður tannheilsa allra Íslendinga, og hún mótast í framtíðinni af því sem við gerum í dag,” segir heilbrigðisráðherra.

Ég get samt verið sammála einu. Rétt er að „efla og samræma lýðheilsustarf í landinu, efla kennslu og rannsóknir á sviði lýðheilsu, vinna að lýðheilsuverkefnum á eigin vegum og í samvinnu við aðra sem og að byggja upp þekkingasetur allra landsmanna, fagfólks jafnt sem almennings, á þessu sviði.“ Fræðsla getur haft góð áhrif og getur ríkið sparað mikla fjármuni með því að bæta til dæmis tannheilsu barna.

Vonandi mun heilbrigðisráðherra forðast skattaleiðina í sinni neyslustýringu. Hversu hátt ætli maður þurfi annars að hækka verðið á kók og snickers til að fólk hætti að kaupa vöruna? Og þegar það virkar... þýðir það að fólk sé að hugsa um heilsu sína eða hefur það kannski bara fundið ódýrari „óhollustu“? Verður kók og snickers þá lúxusvara auðmanna? :-/

Samfylking á villigötum

ESBSamfylkingin hefur unnið að því að koma Íslandi inn í ESB undanfarin 7-8 ár eða svo? Þessi flokkur ætti að vera með heilt bókasafn af rökum, skýrslum, greiningum og hvað það mætti vera í tengslum við aðild Íslands að ESB. Því stefna Samfylkingarinnar snýst nánast eingöngu um ESB.

Er Samfylkingin á villigötum? Er henni treystandi fyrir samningaviðræðum við ESB? Eitt skal vera öruggt... og það er að ef íslenska þjóðin stefnir á aðild að ESB, þá skal það ekki gert undir leiðsögn Samfylkingar í blindni og hálfkæringi!


mbl.is Lítið um rök fyrir umsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

It's true - and it's not over!

264292_258_preview.jpg

Uppfærsla: Samkvæmt ábendingu frá frænda mínum er orðið á götunni að atkvæði Gordons Brown hafi ráðið úrslitum fyrir Ísland í kvöld! :)

Ég er nokkuð viss um að fjöldi Íslendinga hefur fagnað því þegar fáni okkar birtist í síðasta umslaginu í Moskvu fyrr í kvöld. Hér hjá okkur var að minnsta kosti mikil spenna og jafnvel hundurinn virðist hafa áttað sig á þessum gleðifréttum. Loksins berast jákvæðar fréttir af Íslandi erlendis frá. Jóhanna stóð sig alveg frábærlega og það hefði verið alveg glatað ef hún væri ekki meðal 10 efstu í kvöld.

Hins vegar verð ég að segja að kynnarnir voru... hvernig á ég að orða þetta... lélegir. Brandarar þeirra voru oftar en ekki vandræðalegir eða að minnsta kosti nokkuð langt frá því að vera fyndnir. En kannski er það bara hluti af Eurovision pakkanum? :-/


mbl.is Ísland komið áfram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægður með ráðherra utan þings

Ragna_ArnadottirÉg skil vel af hverju Steingrímur og Jóhanna halda fast í Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, sem er ráðherra utan þings. Hún virðist sinna starfi sínu í ráðuneytinu vel og er að mínu mati málefnaleg, yfirveguð og kurteis þegar hún kemur fram í fjölmiðlum. Vonandi mun það tíðkast áfram í framtíðinni að öflugu fólki utan þings verði boðið ráðherraembætti.

Í viðtali á Mbl.is segir Ranga: „Það sem að ég hef gert er að setja af stað vinnu til að skoða málsmeðferð í þessu hælisleitendamálum“

Hæstvirtur dómsmálaráðherra þarf svo að muna að gleyma ekki málinu eða þessari vinnu sem hún setti af stað. Ráðherrar reyna oft að svara með þessum hætti eða segjast hafa sett málið "í nefnd". En þegar fjölmiðlar ljúka umfjöllun sinni um málið er hætta á að þau "hverfi", "týnist" í kerfinu eða dragist óeðlilega á langinn.


mbl.is Látum ekki undan þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þar sem Brown er í stuði...

... væri hann kannski til í að biðjast afsökunar á því sem Bretar gerðu Íslandi s.l. haust? Hér biðst hann afsökunar á hundamata- og ljósaperukaupum breskra stjórnmálamanna. Þessir sömu menn réðust á heilt hagkerfi vinaríkis. Hvað ætli við hefðum getað keypt margar ljósaperur og mörg kíló af hundafóðri fyrir þann pening sem tapaðist vegna aðgerða Breta gagnvart okkur?

Mbl.is: Upplýsingunum var lekið til breska blaðsins Daily Telegraph, sem hefur síðustu daga birt tölur um kostnaðargreiðslur einstaka ráðherra. Meðal þess sem þingmenn hafa skráð sem kostnað eru hundamatur, nýjar ljósaperur, innréttingar í sumarbústað og viðgerðir á pípulögnum á tennisvelli sem tilheyrir sveitasetri.

Jafnframt mætti Brown íhuga að biðjast afsökunar á ummælum sínum um daginn! Ætli þessi maður nái endurkjöri í næstu kosningu?


mbl.is Brown biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband