Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Næst á dagskrá: skuldamál heimilanna!
16.9.2009 | 00:23
Stjórnvöld vilja draga úr vægi verðtryggingar, sem er hið besta mál. En ríkisstjórnaflokkarnir hefðu heldur betur átt að ganga í þessa umræðu fyrr á árinu. Mig minnir nú að einhverjir (VG?) hafi slegið upp þeirri hugmynd að setja þak á verðtryggingu, alla vega tímabundið. Hvað varð af þeirri umræðu? Stjórnmálamenn okkar geta vel og lengi hugsað út leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar en hvað gerum við ef gengið fellur aftur á þessum umhugsunartíma þeirra? Hvernig hjálpar það endurreisninni á Íslandi að heimilin taka á sig 20-30% hækkun á höfuðstól... aftur?!
Það þarf að koma stýrivöxtum niður og færa íslensku þjóðina yfir í óverðtryggð íslensk lán. Þá fyrst munu til dæmis þessir blessuðu stýrivextir virka. Þegar flestir voru komnir með erlend eða verðtryggð lán á föstum vöxtum skipti voða litlu fyrir fólk almennt hvaða ákvörðun seðlabankinn tók í vaxtamálum.
Verðtryggingin mun annars valda því að ungt fólk mun flýja þetta íslenska kerfi sem finnst hvergi annars staðar í heiminum. Samhliða endalausri hækkun á höfuðstól verður eignamyndun neikvæð á komandi árum líkt og nú. En loksins erum við komin að þessum dagskrárlið kreppunnar: skuldamál heimilanna!
Ekki seinna vænna!
Ræða minnkað vægi verðtryggingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vinstristjórnin heldur velli
14.9.2009 | 23:46
Norska vinstristjórnin með meirihluta, algjör skandall! Stjórnin sem sýndi okkur Íslendingum engan stuðning í hruninu s.l. haust og áfram standa þeir þétt með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Okkar stjórn stóð sig kannski ekkert betur í að verja málstað Íslands á alþjóðavettvangi. Ef til vill fylgir þetta ríkisstjórnum vinstriflokkanna?
Hér á skjámyndinni minni sést í leiðtoga KrF og Venstre (borgaralegir flokkar) sem hafa tapað gríðarlega miklu fylgi. Þeir náðu að einangra sig í kosningabaráttunni og fannst mér því myndin lýsa stöðunni sem þeir hafa sjálfir sett sig í. Íhaldsmenn virðast hafa náð sér á strik á ný en það á því miður einnig við um Arbeiderpartiet með Jens Stoltenberg í forystu.
Stoltenberg sigurvegarinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Ábending til þingmanna í Icesave málinu
22.8.2009 | 13:55
InDefence hópurinn sendi í gær út tilkynningu með ábendingu til þingmanna í Icesave málinu. Hópurinn benti á ákveðna lausn hvað fyrirvarana varðar, það er að segja lausn sem getur tryggt lagalegt gildi þeirra. Ég spjallaði við Eirík Svavarsson, lögfræðing og fulltrúa InDefence, um þessi mál og hér er myndbandið:
Fyrirvarar í Icesave málinu: ábending til þingmanna from InDefence on Vimeo.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Þeir hljóta að halda" segir talsmaður Breta og Hollendinga á Íslandi
21.8.2009 | 18:04
Össur Skarphéðinsson, ráðherra/talsmaður Breta og Hollendinga á Íslandi, segir í dag að þeir fyrirvarar sem samþykktir voru í fjárlaganefnd og Alþingi hefur nú til umfjöllunar "hljóti að halda". Össur sagði í dag að:
þeir fyrirvarar sem Alþingi setur með meirihluta hér á þingi, þeir hljóta að halda.
Sorry Össur, en þetta er bara lélegt. Ég er alveg að gefast upp á þessum þingmönnum Samfylkingar sem ætluðu að samþykkja ríkisábyrgðina áður en þeir fengu að sjá samningana.
Þegar ráðherra segir að þessir fyrirvarar "hljóti að duga", þá er hann að viðurkenna hversu mikil óvissa er í málinu. Nú þarf að skoða vel tillögur InDefence um mjög einfalda, en góða, breytingu á frumvarpinu: http://facebook.com/InDefence/
Fyrirvararnir hljóta að halda | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.8.2009 kl. 01:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Stjórnvöld of sein með víðtæka kynningu
17.8.2009 | 09:03
Loksins þegar ríkisstjórninni virðist hafa náð niðurstöðu í Icesave málinu fer einhvers konar kynning af stað heima og erlendis? Það var kannski satt það sem kynningarfulltrúi fjármálaráðuneytisins sagði í viðtali um daginn. Það átti að kynna málstað Íslands EFTIR að niðurstaða væri fengin í þessum þremur stóru málum: ESB, Icesave og endurreisn bankakerfisins.
Gott að sendiherrar séu loksins upplýstir, og að kynning fari af stað heima og erlendis. En þetta kemur heldur betur seint.
Víðtæk kynning heima og erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þverpólitísk samstaða á Austurvelli
13.8.2009 | 22:25
Þetta var góður fundur, en alls engin endastöð. Heldur bara byrjunin á baráttunni fyrir hag þjóðarinnar. Að samþykkja Icesave hefur sínar afleiðingar en að sjálfsögðu verða einnig átök ef/þegar núverandi samkomulagi við Breta og Hollendinga verður hafnað. Þessar fyrrverandi nýlenduþjóðir munu neyðast til þess að koma aftur að samningaborðinu.
Samstöðufundur Íslendinga á Austurvelli í dag var langt frá því að líkjast átökunum s.l. vetur. Í kvöld var engin krafa lögð fram um að ríkisstjórnin segi af sér... af hverju ekki? Vegna þess að nú þurfum við að ljúka þessu Icesave máli með farsælum hætti og leggja til hliðar um stund hina innlendu flokkspólitísku baráttu. Við þurfum niðurstöðu sem íslensk þjóð getur bæði sætt sig við og staðið undir.
3000 á samstöðufundi InDefence | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stöndum saman – ríkisstjórnin með þjóðinni
13.8.2009 | 08:38
Nú verður ríkisstjórn Íslands að gerast raunsæ og fara að horfast í augu við hversu ótækir fyrirliggjandi Icesave samningar eru. Ríkisstjórnin verður að hlusta á rökvísar ábendingar fjölmargra sérfræðinga og hlíta vilja stórs meirihluta þjóðarinnar sem vill hafna þessum samningum. Fjármálaráðherra og ríkisstjórnin öll verður að snúa sér að því að ná sanngjarnari niðurstöðu. Meðferð málsins hefur verið ein samfelld hrakfallasaga. Samt reynir fjármálaráðherra endalaust og af öllum sínum sannfæringarkrafti að draga fram einhverja kosti samninganna. Það eru hins vegar vankantar og aftur vankantar sem koma í ljós. Því verður æ skiljanlegra að í upphafi skuli hafa verið ætlun fjármálaráðherra að fá ríkisábyrgð á samningunum án þess að þingmönnum yrði veittur aðgangur að samningsskjölunum svo fráleit vanvirðing við Alþingi sem slík málsmeðferð er.
Ríkisstjórninni virðist ennþá vera meira í mun að verja Icesave samningana en rétta hlut þjóðarinnar gagnvart viðsemjendunum. Í hvert sinn sem fram koma lagarök sem styðja málstað Íslendinga eru fengnir innanbúðarmenn stjórnarinnar til að reyna að andæfa þeim, rétt eins og þeir væru í vinnu hjá Bretum og Hollendingum en ekki valdir til að gæta hagsmuna Íslendinga. Ef möguleikar eru á tvenns konar túlkun velja forystumenn ríkisstjórnarinnar ævinlega þann kostinn sem kemur Bretum og Hollendingum betur. Þeir þráast við að viðurkenna það sem þorri alþingismanna hefur fyrir löngu áttað sig á að samningarnir eru ótækir með öllu fyrir íslenska þjóð.
Nú þegar tilraunirnar til rökstuðnings hafa mistekist hjá ríkisstjórnarforystunni virðist eiga að hafa í hótunum við þingmenn stjórnarliðsins sem ekki geta samvisku sinnar vegna stutt samningana og vilja að betur verði gert. Það væri lýðræði og þingræði okkar mikið áfall ef haldið verður lengra á þeirri braut. Hótanir um að þeir sem ekki vilja styðja samningana valdi stjórnarslitum eru út í hött. Stjórnin hefði aldrei meiri ástæðu til að sitja en ef hún einsetti sér að standa sig betur en áður við að tryggja hag þjóðarinnar gagnvart Bretum og Hollendingum í Icesave-málinu.
Ýmis dæmi eru líka um það úr milliríkjasamskiptum að samningar hafi ekki náð staðfestingu þjóðþinga. Reyndum samningamönnum Breta og Hollendinga og ríkisstjórnum þeirra, sem þekkja til hlítar alþjóðlegar hefðir og venjur, var að sjálfsögðu fullljóst að ákvörðun um ríkisábyrgð, og þar með gildi samninganna, væri einungis á valdi Alþingis. Nú þegar mistekist hefur gjörsamlega að sannfæra Alþingi um ágæti þessara samninga á framkvæmdavaldið að sjá sóma sinn í því að gera viðsemjendunum grein fyrir þeirri staðreynd. Hún skuldar þjóð sinni að leita nýrrar niðurstöðu -- sanngjarnari samninga.
Bæði Bretum og Hollendingum er auðvitað fyrir löngu orðið fyllilega ljóst að málið stefnir í þann farveg. Meint tregða þeirra til að setjast að samningaborði á ný sýnir vel hve hagstæðum samningum þeir telja sig hafa náð. Höfnun Alþings á þessum samningum er forsenda þess að sest verði að samningaborði aftur. Bretar og Hollendingar eiga ekki völ á öðru en taka boði um nýjan samning.
Að sjálfsögðu verður höfnun Alþingis á Icesave samningunum áskorun fyrir íslenska þjóð. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem Íslendingar stæðu andspænis ofurvaldi fyrrverandi nýlenduþjóða. Í landhelgisdeilum fyrr á árum hafði þessi fámenna þjóð þó fullnaðarsigur. Ein meginforsenda þeirra farsælu málalykta var að þá stóð þjóðin þétt saman. Það er skylda okkar Íslendinga nú, hvar í flokki sem við erum, að standa saman gegn þessum ótæku Icesavesamningum. Með samstöðu munum við snúa glímu sem nú stefnir í uppgjöf í sókn. Ég skora á íslensk stjórnvöld að sýna samstöðu með þjóð sinni.
Morgunblaðið 13. ágúst 2009
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Bloggfríi fer brátt að ljúka
3.8.2009 | 22:37
Vonandi mun ég finna tíma í bloggskrif á ný fljótlega. Ástandið hér á landi kallar á öfluga þjóðfélagsumræðu og mun ég ekki láta mig vanta þar á bæ.
Icesave – gamla Steingrím J. í baráttuna aftur
21.7.2009 | 23:21
Mér blöskrar sú staða sem upp er komin í íslenskum stjórnmálum. Að undanförnu hefur framkvæmdavaldið ætlast til þess að háttvirtir þingmenn taki ákvörðun fyrir hönd þjóðarinnar án þess að fá allar nauðsynlegar upplýsingar. Mér ofbýður aðför ríkisstjórnarinnar að hinu lýðræðislega kjörna Alþingi.
Allar upplýsingar á borðinu?
Nýlega hélt ríkisstjórnin því fram að öll gögn [væru] komin á borðið í Icesave málinu og þingmenn því með allar upplýsingar í höndum. Stuttu eftir það birti Morgunblaðið álit bresku lögfræðistofunnar Michon de Reyja þar sem meðal annars kemur fram að ábyrgð Íslendinga í Icesave málinu er síður en svo ótvíræð. Þetta álit hafði þá hvorki verið birt né afhent þingmönnum.
Fyrstu viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru að þetta skjal væri ómerkilegt, en svo bað hæstvirtur utanríkisráðherra Alþingi forláts fyrir þau mistök að hafa ekki veitt þingmönnum aðgang að skýrslunni. Þessi afsökunarbeiðni er kærkomin en samt eflist við uppákomuna tortryggni gagnvart íslenskum yfirvöldum. Þessu vinnulagi verður að breyta, því hvað annað kann að hafa gleymst að birta eða afhenda þingmönnum?
Icesave samning en ekki þennan
Þótt Alþingi og ríkisstjórn beri fyrst og fremst að gæta hags íslensku þjóðarinnar er líka vert að hafa í huga að það er engan veginn í hag Breta eða Hollendinga að ná samningi sem íslenska þjóðin getur ekki staðið við. Í núverandi Icesave-samning skortir varnagla. Öll áhætta af því t.d. hvernig eignir Landsbankans nýtast er á okkur. Og ennþá skortir alla trygga yfirsýn yfir getu okkar til að efna slíkan samning. Mér finnst makalaust að kjörnir þjóðfulltrúar treysti sér til að taka á þjóðina skuldir sem bæði hvíla á ótraustum lagagrunni og að auki er mikil óvissa um að við getum risið undir. Það er að segja staðið undir þannig að þjóðin nái að þrífast þolanlega og eðlilega.
Ekkert í viðurkenndum venjum alþjóðasamskipta er því til fyrirstöðu að ríkisstjórnin geti tekið málið upp á ný við Breta og Hollendinga. Vel er hægt að vera þeirrar skoðunar að reyna beri samningaleið til þrautar, þótt núverandi samningur þyki ótækur. Það má vera að Steingrímur viti ekki hvað hann eigi að segja við bresku og hollensku kollega sína þegar þeir óska eftir svörum við höfnun Alþingis á Icesave samkomulaginu. En ég legg þá til að ráðherrann segi einfaldlega: Móti okkar von og vilja hefur komið í ljós að Alþingi Íslendinga telur samninginn ekki sanngjarnan. Því þurfum við - ef reyna á samningaleiðina frekar - að setjast niður á ný og breyta þeim atriðum sem standa í vegi fyrir samþykkt þingsins. Flóknara þarf þetta ekki að vera.
Í stað þess að undirbúa slík svör og fara nú að tala máli Íslendinga, eftir að hafa séð andstöðu þingsins og almennings, reynir Steingrímur með sinni miklu ræðusnilli en jafnframt ófyrirleitni og falsrökum (þ.m.t. óábyrgu tali um einangrun Íslands) að setja þumalskrúfur á þingmenn svo þeir samþykki samninginn gegn samvisku sinni og betri vitund. Framkvæmdavaldið má ekki hóta Alþingi eða gera þingmenn ábyrga fyrir ótækum samningi ríkistjórnarinnar við Breta og Hollendinga.
Í þágu Íslands aftur
Það er með ólíkindum hvernig Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, hefur á örfáum mánuðum tekist að fyrirgera miklu trausti sem hann hafði áunnið sér í stjórnarandstöðu. Hvernig hann hefur getað horfið frá skoðunum sínum í jafnstórum málum og Icesave og ESB. Á tímum sem þessum þurfum við stjórnmálamenn sem sýna stefnufestu og þrautsegju - og missa ekki móðinn í miðri baráttu. Ásmundur Daðason, nýr þingmaður VG, sagði á þingi á dögunum að honum væri ógnað með því að stjórnarslit yrðu ef hann færi eftir sannfæringu sinni og stæði að tillögu um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB. Ásmundur hafði kjark til að opinbera þessa stöðu sína á fundi Alþingis og yfirgaf salinn í kjölfarið. Sagðist hann ekki ætla að taka þátt í umræðunni, en kæmi engu að síður til að greiða atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. Það ber að þakka Ásmundi fyrir að þora að standa gegn slíku ofbeldi framkvæmdavaldsins gagnvart óbreyttum þingmönnum.
Ísland varð ekki sjálfstætt ríki né náði hvað eftir annað árangri í landhelgismálinu án baráttu. Þá var ekki klifað á því að betra [væri] að semja en að deila. Ég heimta gamla Steingrím J. til baka á þing. Þann Steingrím sem berst fyrir eigin stefnu í ESB og Icesave málum, eins og hann lýsti henni fyrir kosningar en þrælar ekki fyrir vagni Samfylkingarinnar og talar máli Breta og Hollendinga meira en okkar landa sinna. Ég hrósa Framsóknarmönnum og þingmanni VG, Ásmundi Daðasyni, fyrir aðdáunarverða frammistöðu á þingi og ég hvet Sjálfstæðismenn til að halda áfram að leggja eigin tillögur fyrir þing fjölskyldum og fyrirtækjum til bjargar, því lausnirnar virðast ekki berast úr herbúðum vinstriflokkana.
Greinin birtist áður í Morgunblaðinu 17. júlí 2009.
Þrýst á Íslendinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.8.2009 kl. 22:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðild að Evrópusambandinu – eða ekki
16.7.2009 | 14:51
Ég get einungis talað fyrir mig sjálfan. En sem ungur Íslendingur verð ég að taka afstöðu til hvert ég óska að þjóð mín stefni. Eftir að hafa skoðað m.a. Evrópusambandið (ESB) í mínu þriggja ára námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og framhaldsnámi í alþjóðasamskiptum við sama háskóla, hef ég tekið þá afstöðu að þjóðinni sé betur borgið utan sambandsins. Það getur aldrei verið betra að aðrir ráði meiru um málefni Íslendinga en þeir sjálfir. Að mínu mati sést líka glögglega í Icesave málinu hvernig stóru ríkin í sambandinu hegða sér ef upp kemur erfið staða fyrir ráðamenn þeirra. Þeir víla ekki fyrir sér að troða á þeim sem minni eru. Við megum ekki líta á þróun alþjóðasamstarfs Íslands út frá óskhyggju heldur raunhyggju. Líta á alþjóðasamfélagið eins og það er, en ekki eins og mörg okkar kysu að það væri, og móta afstöðu út frá því.
Sveigjanleiki og valkostir eru meðal styrkleika Íslands sem smáþjóðar í alþjóðasamfélaginu. Við þurfum að huga vandlega að öllu alþjóðasamstarfi og láta þar ekki troða á okkur, eins og Icesave málið sýnir glögglega að alltaf er hætta á. Það getur virst skína mikil fegurð úr laufskrýddum skógi tilskipana og reglugerða ESB sem samtvinnar allt og alla. En sú fegurð hvarf snögglega þegar upp kom galli á regluverki ESB um innlánstryggingar. Þá fór lítið fyrir samstöðunni og ESB var ekki lengi að koma ábyrgðinni yfir á Ísland í þágu kröftugra aðildarríkja sinna. Mér hefur verið sagt að slíka meðferð fengjum við ekki sem aðildarríki sambandsins, en slíkt getur enginn vitað með vissu. Og ég vil heldur ekki stuðla að því að Ísland verði hluti af ríkjasambandi sem hegðar sér með svo óábyrgum hætti gagnvart nágrönnum í þröngri stöðu.
Ég er síður en svo andstæðingur Evrópusamstarfs. Hvenær kom sá dagur að samstarf við önnur ríki álfunnar þýddi eingöngu aðild að ESB? Hér á landi þarf að standa vörð um öflugt samstarf við Evrópu en einnig aðrar heimsálfur sem Íslendingum hugnast að eiga samstarf við.
Samþykkt að senda inn umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)